Svanhvít Ósk Jónsdóttir er ein af fjórum bókurum Eignaumsjónar. Hún býr í Árbænum og helstu áhugamálin utan vinnu eru prjónaskapur og hjólreiðar. Svo er hún fótboltamamma og fer á eins marga leiki og hún mögulega getur.
„Ég er búin að vinna í bókhaldinu hjá Eignaumsjón í um tvö og hálft ár, eða síðan í október 2019. Það skemmtilegasta sem ég geri er að leita að mismun á debet og kredit og láta bókhaldið stemma.
Ég sé líka um að reikna út laun húsvarða hjá húsfélögum sem eru með slíka starfsemi og það var viss áskorun. Ég þarf að vera með reglur verkalýðsfélaga á hreinu og vera á tánum út af launabreytingum og fleiru.“
Ætlaði alltaf að búa í borginni
Svanhvít er fædd og uppalin á Stokkseyri, næst elst í hópi sjö systkina og ætlaði sér alltaf að búa í borginni en ekki á litlum stað út á landi.
„Ég flutti í „borg óttans“ aðeins 16 ára gömul og hef verið hér síðan. Ég fór í Húsmæðraskólann í Reykjavík, enda dálítið mikil húsmóðir og mamma! Námið var svakalega skemmtilegt og lærdómsríkt og ég mæli með þessu fyrir alla. Ég byrjaði síðan í framhaldsskóla, skipti svo yfir á skrifstofubraut í MK, sem er sérsniðið nám að bókhaldi/skrifstofustörfum og útskrifaðist sem rekstrarfulltrúi. Ég er einnig með próf sem viðurkenndur bókari, auk þess sem ég hef farið á mikið af námskeiðum, s.s. Dale Carnegie, Kvan og fleiri sjálfsstyrkingarnámskeið.“
Svanhvít býr í Árbænum í dag, er gift og á þrjú börn og hund. Hún er fyrrum hlaupari en gerir ekki eins mikið af því og áður, þó alltaf eitthvað, en hjólar þess meira.
Elskar að hjóla um allt
„Ég keypti mér rafmagnsfjallahjól í fyrravor og elska að hjóla um allt. Ég hjóla frá því að snjóa leysir á vorin og þar til fer að snjóa aftur á haustin og t.d. alltaf í vinnuna þegar ég get,“ segir Svanhvít, þegar spurt er hvað hún geri til að hugsa um heilsuna. Henni finnst líka gaman að ganga og fer t.d. oft upp á Úlfarsfellið.
Útiveran er líka helsta áhugamál hennar, ásamt prjónaskap. „Ég prjóna mjög mikið og hef mikla þörf fyrir að vera að gera eitthvað í höndunum, finnst annað vera tímasóun,“ bætir hún við og hlær.
Sól, hjól og fótbolti
„Við hjónin skelltum okkur nýlega í smá frí til Tenerife, eins og fleiri Íslendingar,“ svarar Svanhvít, aðspurð hvað eigi að gera í sumarfríinu. Á döfinni er einnig að kíkja norður á Akureyri, vera í hjólhýsi fjölskyldunnar í sveitinni, fara í árlega veiðiferð inn í Veiðivötn, og hjóla á nýjum og spennandi stöðum.
„Ég ætla líka að vera dugleg að fara á fótboltaleiki í sumar. Ég á tvö börn í boltanum sem eru í marki í sitt hvoru liðinu og reyni að mæta á alla leiki hjá þeim!“