„Verum góð við hvort annað, horfum fram á veginn og lifum lífinu lifandi,“ er lífsmottó Loga Más Einarssonar húsumsjónarmanns hjá Eignaumsjón, sem ferðast helst um á mótorhjóli og spilar rokk í frístundum.
„Föðurfólkið mitt er Eyfellingar og móðurfólkið úr Flóanum þannig að seint telst ég Norðlendingur,“ segir Logi kankvís og bætir við að hann sé innfæddur Reykvíkingur.„En ég óx og þroskaðist upp úr því og bý nú í Hafnarfjarðarbæ, eins og reyndar sex kollegar mínir hér hjá Eignaumsjón.“
Logi er kvæntur og fimm barna faðir og barnabörnin eru líka fimm talsins. Hann er bændaskóla- og iðnskólagenginn, er lærður húsasmiður og hefur alltaf unnið með höndunum, eins og hann orðar það. Hann var í Slökkviliði Reykjavíkur í níu ár en hefur lengst af verið í iðnaðarmannavinnu. Reynslan af þessum störfum hefur komið sér vel í húsumsjóninni hjá Eignaumsjón þar sem Logi hóf störf í byrjun árs 2019.
Hreyfanleiki og samskipti við skemmtilegt fólk
„Farandhúsvörður er ágætis orð yfir þetta. Ég flakka á milli húsfélaga og hef eftirlit með ástandi sameignar húsanna, bendi á það sem betur má fara og reyni að sjá fyrir komandi viðhald. Í nýrri fjölbýlishúsum eru líka margs konar kerfisstýringar sem þarf að hafa reglulegt eftirlit með, svo sem fyrir hitakerfi, aðgangskerfi, þjófavarnarkerfi, snjóbræðslur og fleira. Við fylgjumst einnig með almennri umgengi, þar á meðal að íbúar skilji ekki eftir muni í sameign sem hætta getur stafað af ef eitthvað kemur upp á. Jafnframt þarf að sinna og hafa eftirlit með niðurföllum, tína rusl á lóðum og í bílageymslum, auk þess sem margs konar smáverk koma daglega inn á borð til okkar.“
Húsumsjón er sérsniðin þjónustuleið hjá Eignaumsjón fyrir stærri hús- og atvinnufélög sem byrjað var að bjóða upp á fyrir nokkrum árum. Aðspurður segir Logi að helstu áskoranir í starfinu felast í því að ekkert hús er í raun eins og kerfin í þeim misjöfn.
„Það þarf því að kynnast þeim kerfum sem eru í hverju húsi fyrir sig og læra á þau, sem getur verið nokkur áskorun. Skemmtilegast í þessu starfi er hreyfanleikinn. Mér finnst gaman að vera á ferðinni. Starfinu fylgja líka oft skemmtileg samskipti við alls konar fólk, að ég tali nú ekki um þann stórskemmtilega hóp sem eru vinnufélagar mínir hjá Eignaumsjón!“
Mótorhjól, rokk, fjölskyldan og lífið
Bílar og mótorhjól hafa heillað Loga í gegnum tíðina. Hann hefur verið upptekinn af þessum tækjum frá því að hann var unglingur, gerir við flest sjálfur og hefur aðeins brasað í jeppabreytingum. Hann er félagi í Sniglunum, Útivist og 4×4, enda er hreyfing og útivera honum nauðsynleg og ætla þau hjónin að halda á vit ævintýra innanlands í sumarfríinu.
Í seinni tíð hefur svo tónlistin skotist upp á yfirborðið sem áhugamál hjá Loga. „Ég og félagi minn byrjuðum með hljómsveitina Nýríka Nonna árið 2016 og spilum frumsamið rokk, svona í „old school“ stíl og höfum gefið út einn 13 laga disk. Þannig að áhugamálin vantar ekki til viðbótar auðvitað við þetta augljósa, fjölskylduna og lífið!“