„Það er alltaf gaman að koma að stofnun nýrra deildaskiptra heildarhúsfélaga og leggja þannig bæði lóðarhöfum og íbúðaeigendum lið við að móta farsælt samfélag íbúa og atvinnustarfsemi á byggingarreitnum,“ segir Páll Þór Ármann hjá Eignaumsjón sem á dögunum sá um stofnun húsfélags fyrir Mýrargötu 33 til 39 í Vesturbæ Reykjavíkur.
Húsfélagið, sem samanstendur af 102 íbúðum og fjórum atvinnubilum eða alls 106 eignarhlutum, er tekið til starfa, enda eru fyrstu íbúarnir þegar fluttir inn í húsin á Mýrargötu 33 og 39. Byggingarframkvæmdir standa enn yfir við Mýrargötu 35 og 37 en gert er ráð fyrir afhendingu íbúða í seinni tvö húsin á næstu mánuðum.
Lífsgæði við sjávarsíðuna
Það er Fasteignaþróunarfélagið Spilda sem stýrir byggingu Mýrargötuhúsanna fjögurra á Héðinsreitnum fyrir Granda íbúðafélag og hófust framkvæmdir haustið 2020. Húsin eru fjögurra til fimm hæða há og undir þeim er kjallari þar sem verða geymslur ásamt bílastæðum fyrir hluta af íbúðunum.
Staðsetningin á Grandanum er um margt einstök. Þar fara saman eiginleikar nútíma íbúðahverfis og náttúrufegurð sjávarsíðunnar og fjölskrúðugt mannlíf miðborgarinnar, sem er þar innan seilingar.
Hvers vegna deildaskipt heildarfélag?
„Það er að skila miklu hagræði fyrir eigendur í nýjum, stærri fjölbýlishúsum að láta eitt deildaskipt heildarhúsfélag halda utan um allt sem snýr að sameign viðkomandi fasteigna, þ.e. ytrabyrði, lóð og sameign í stigagöngum/deildum og ramma jafnframt inn alla starfsemi sem tengist húsfélaginu með skýrum samþykktum og uppgjörsreglum. Heildarfélag tryggir betra jafnvægi í rekstri til lengri tíma, tryggir samræmt utanumhald og auðveldar hagræðingu, bæði í innheimtu, öflun þjónustu o.fl. Stjórnun húsfélagsins verður líka styrkari með eina stjórn, skipaða fulltrúum úr öllum deildum húsfélagsins, í stað þess að mörg félög og margar stjórnir komi að málum,“ segir Páll, sem hefur annast stofnun og innleiðingu nýrra húsfélaga hjá Eignaumsjón til fjölda ára.
„Með heildarfélagi erum við að tryggja hagsmuni allra viðkomandi og náum vonandi líka að skapa jákvætt og samstíga samfélag á þessum glæsilega byggingarreit Grandans í Vesturbæ Reykjavíkur.“
Húsfélagsþjónusta Eignaumsjónar
Húsfélagið Mýrargata 33-39 er í þjónustuleið 2; fjármál og fundir hjá Eignaumsjón. Félagið er einnig í Húsumsjón, sem er viðbótarþjónusta fyrir stærri húsfélög og atvinnuhúsnæði. Þjónustan tryggir reglubundna umsjón með sameign fasteignar og sér til þess að ástand sameignarinnar verði ávallt eins og best er á kosið.
Nánari upplýsingar um uppbygginguna á Mýrargötu 33-39 er að finna á https://grandinn.is/