Eignaumsjón er í hópi 15 meðalstórra fyrirmyndarfyrirtækja VR. Lilja Kristinsdóttir bókari, sem er með lengstan starfsaldur starfsfólks hjá Eignaumsjón, veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins þegar niðurstöður í könnun VR voru kynntar við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær, miðvikudaginn 10. maí.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, afhentu viðurkenningarnar til fyrirtækja í þremur stærðarflokkum. Í flokki lítilla fyrirtækja starfa færri en 30, í flokki meðalstórra fyrirtækja stafa 30-60 og flokki stórra fyrirtækja starfa fleiri en 70.
Stefnum á að gera enn betur
Fimmtán stigahæstu fyrirtækin í hverjum flokki hlutu nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki 2023 og fimm stigahæstu fyrirtækin í hverjum flokki hlutu einnig nafnbótina Fyrirtæki ársins 2023. Einnig voru sérstök aukaverðlaun nú veitt í fyrsta sinn og fengu þrjú fyrirtæki, eitt í hverjum flokki, nafnbótina Fjölskylduvænustu fyrirtækin 2023. Alls tóku 155 fyrirtæki þátt í könnun VR í ár, þar af voru 52 í flokki meðalstórra fyrirtækja.
„Ég er afskaplega stoltur yfir þessum árangri og mér er efst í huga þakklæti til starfsfólksins fyrir jákvætt viðhorf til fyrirtækisins. Það er jafnframt ljóst að hægt er að gera enn betur og að því stefnum við ótrauð,“ sagði Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, glaður í bragði eftir athöfnina í Hörpu.