Eignaumsjón hf. og Bjarg íbúðafélag hafa gert með sér samkomulag um að Eignaumsjón annist rekstrarumsjón íbúafélaga sem starfrækt verða í fjölbýlishúsum á vegum Bjargs. Fyrstu tvö íbúafélögin, fyrir Móaveg 2-12 í Grafarvogi og Asparskóga 12-16 á Akranesi, eru tekin til starfa.
Íbúafélög Bjargs líkjast í raun almennum húsfélögum, hvert íbúafélag verður sjálfstætt félag leigutaka í viðkomandi húsi eða húsum, sem kýs sér stjórn og verður formaður stjórnar jafnframt tengiliður íbúafélagsins við Bjarg.
Íbúafélögin í húsum Bjargs annast daglegan rekstur sameignar og búnaðar, m.a. kaup á raforku, hita, ræstingu, sorphirðu, umhirðu lóðar og bílastæða, ásamt öðru sem íbúarnir ákveða. Eignaumsjón aðstoðar við undirbúning og stofnun íbúafélaga Bjargs. Eignaumsjón annast jafnframt rekstrarumsjón íbúafélaganna, s.s. utanumhald um fjárreiður, samskipti við íbúa um málefni félaga og framkvæmd félagsfunda.
Fyrstu íbúafélögin tekin til starfa
Starfsemi fyrstu íbúafélaga Bjargs hófst formlega í síðustu viku með félagsfundunum fyrir Asparskóga 12-16 á Akranesi og Móaveg 2-12 í Grafarvogi.
- Við Móaveg er starfrækt eitt deildaskipt íbúafélag fyrir húsin sex sem þar eru. Þegar er flutt inn í 59 af 155 leiguíbúðum þar. Aðrar framkvæmdir eru vel á veg komnar og verklok áætluð í byrjun næsta árs.
- Íbúafélagið við Asparskóga á Akranesi er einnig deildaskipt. Það nær til þriggja húsa með samtals 33 leiguíbúðum. Framkvæmdum er lokið þar.
Bjarg íbúðafélag stefnir að því að byggja um 1.400 leiguíbúðir á næstu árum. Framkvæmdir eru þegar í gangi við Urðarbrunn í Úlfarsárdal, við Hraunbæ í Árbæ, við Hallgerðargötu á Kirkjusandi og á Akureyri. Jafnframt eru frekari framkvæmdir fyrirhugaðar í Reykjavík, Sandgerði, Þorlákshöfn, Hafnarfirði og á Selfossi. Íbúafélögum Bjargs mun því fjölga jafnt og þétt, eftir því sem uppbyggingu íbúða félagsins miðar fram.