Landlínusímakerfið um koparþráð heyrir brátt sögunni til og því ekki seinna vænna að fara að huga að ráðstöfunum. Meðal þess sem lokun landlínusímkerfisins hefur áhrif á eru neyðarsímar í lyftum margra fjöleignarhúsa, einkum eldri húsa. Eignaumsjón kannar nú í samvinnu við þjónustuaðila hvaða tæknilausnir geta leyst landlínukerfið af hólmi og hvað þær kosta.
Umræddar breytingar ná til allra fjarskiptafélaga á landinu og er áætlað að svokölluð útfösun landlínukerfisins hefjist í haust og verði lokið að fullu á árinu 2021 samkvæmt upplýsingum frá Símanum.
Ljósleiðaratenging eða farsími
Bæði lyftu- og öryggisfyrirtæki hafa verið upplýst um fyrirhugaðar breytingar og samkvæmt upplýsingum frá þjónustuaðilum, sem annast eftirlit með lyftum og lyftubúnaði í fjöleignarhúsum hérlendis, er tvennt í stöðunni varðandi þá neyðarsíma sem nú eru landlínutengdir.
Annars vegar er hægt að tengja neyðarsímann inn á ljósleiðara og hins í farsíma. Frekar er mælt með því að tengja neyðarsíma í lyftum við farsímabúnað sem er með innbyggðri neyðarrafhlöðu og vaktaður reglulega. Ef valið er að tengja neyðarsíma við ljósleiðara þarf að tryggja að varaaflgjafi sé til staðar. Annars er hætt við að ljósleiðaratengingin geti orðið óvirk í straumleysi.
Leitum hagkvæmustu kjara
Fyrir þá viðskiptavini okkar sem þurfa að fara í slíkar framkvæmdir er Eignaumsjón nú að leita tilboða hjá þjónustuaðilum í búnað sem mun standa viðskiptavinum okkar til boða þegar og ef þeir kjósa að fara í þessar breytingar.