Borgarráð samþykkti á dögunum úthlutunarreglur úr sjóði sem Reykjavíkurborg og OR samþykktu í vor að koma á laggirnar til að styrkja uppsetningu hleðslubúnaðar rafbíla við fjöleignarhús í borginni. Hámarks styrkupphæð til hvers húsfélags er 1,5 milljónir króna en þó aldrei hærri en sem nemur 67% af heildarkostnaði verksins. Umsóknarfrestur er til 1. september 2019.
Sjóðurinn er hluti af átaki í uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Hann er fjármagnaður að jöfnu af Reykjavíkurborg og OR og hefur samtals 120 milljónir króna til ráðstöfunar næstu þrjú árin. Samkvæmt reglugerðinni verður hámarks styrkupphæð til hvers húsfélags 1,5 milljónir króna, þó aldrei hærri en sem nemur 67% af heildarkostnaði verksins með virðisaukaskatti. Nær styrkveitingin til kostnaðar vegna ráðgjafar sérfræðinga um hönnun, jarðvinnu-, efnis- og uppsetningarkostnaðar, sem og kostnaðar við leyfisveitingar og heimtaugargjald.
Styrkja eingöngu uppsetningu búnaðar á sameiginlegum bílastæðum
Styrkurinn er einungis veittur til fjöleignarhúsa með fimm íbúðum, eða fleiri og eingöngu vegna hleðslubúnaðar sem settur er upp á sameiginlegum bílastæðum innan lóðar viðkomandi húsfélags. Skulu hleðslustöðvarnar vera aðgengilegar öllum íbúum húsfélagsins. Þess er jafnframt krafist að hleðslustöðvarnar séu í eigu og umsjón húsfélagsins og hugað sé í upphafi að því hvernig kostnaði er skipt á milli þeirra sem nota hleðsluaðstöðuna.
Þá er gerð krafa um að viðkomandi húsfélag reki hleðsluaðstöðuna í að minnsta þrjú ár frá uppsetningu, að örðum kosti áskilur borgin sér rétt til að krefja félagið um endurgreiðslu á styrknum. Enn fremur er áréttað í reglugerðinni að ekki verði veittur styrkur til húsa í byggingu, né heldur framkvæmda sem eru hafnar, eða lokið, þegar sótt er um styrk.
Þarf samþykki húsfundar fyrir framkvæmd og breyttri bílastæðanotkun
Fulltrúi viðkomandi húsfélags skal sækja rafrænt um styrkinn á „mínar síður“ á vef Reykjavíkurborgar eða fylla út umsóknareyðublað og senda með fylgigögnum á rafbilar@reykjavik.is. Samþykki fyrir umsókninni þarf að liggja fyrir, áður en búnaður er keyptur og framkvæmdir hefjast. Með umsókninni þarf að fylgja lýsing á framkvæmdinni, fjöldi og staðsetning hleðslustöðva, kostnaðaráætlun, tilboð verktaka og styrkupphæð. Jafnframt skal fylgja lýsing á fyrirhugaðri gjaldfærslu fyrir notkun ásamt samþykki húsfélagsins fyrir framkvæmdinni og breyttri notkun bílastæða sem eru ætluð til hleðslu rafbíla. Þá er kveðið á um það í reglugerðinni að ljúka skuli framkvæmdum innan sex mánaða frá því að umsókn var samþykkt, enda falli vilyrði fyrir styrk niður að öðrum kosti og þarf þá að sækja um hann að nýju.
Hleðslubúnaður sem settur er upp, lagnir og allur frágangur, skal uppfylla í öllu kröfur í íslenskri löggjöf og unnin af löggiltum rafverktaka samkvæmt leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar: Hleðsla rafbíla og raflagnir.