Vegna óvissu sem komið hefur fram um vald stjórna húsfélaga þar sem aðalfundir hafa ekki verið haldnir, skal áréttað að stjórnir hafa umboð til að taka ákvarðanir sem snúa að daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar húsfélags.
Í nýlegu svari félagsmálaráðuneytisins við erindi Eignaumsjónar varðandi frestun aðalfunda vegna kórónaveirunnar var skýrt tekið fram að kjörtímabil stjórna framlengist í þeim húsfélögum sem ekki voru búin að halda fund þegar samkomubann var sett á. Skulu umræddar stjórnir sitja allt þar til að hægt verður að halda aðalfund en þó eigi lengur en til októberloka.
Samþykki þarf fyrir stærri framkvæmdum
Jafnframt var áréttað í svari félagsmálaráðuneytisins að lögum samkvæmt hafi stjórnir húsfélaga umboð til að taka ákvarðanir um daglegan rekstur og hagsmunagæslu vegna sameignar húsfélags. Það eigi m.a. við um minni háttar viðhaldsframkvæmdir og ýmsar aðrar ráðstafanir í rekstri húsfélagsins sem þoli ekki bið. Aðrar ráðstafanir, s.s. framkvæmdir sem eru verulegar hvað varðar kostnað, umfang og óþægindi, þurfi hins vegar að bíða með milli funda.