Innleiðing er hafin hjá fyrstu 10 húsfélögunum á sérhæfðri innheimtu Eignaumsjónar vegna rafbílahleðslu. Samningar um heildarumsjón með rafbílahleðslu eru í ferli hjá sjö stórum húsfélögum, en samtals eru þessi 17 húsfélög með á annað þúsund eignarhluti/íbúðir.
Rafbílum fjölgar hratt hérlendis og mikill áhugi er meðal stjórna húsfélaga fyrir Bílastuði Eignaumsjónar – kærkominni viðbót fyrir húsfélög sem hyggja á uppsetningu rafhleðslukerfa.
„Greiðslulausnir okkar eru þær hagkvæmustu fyrir rafbílaeigendur í fjölbýlishúsum. Þjónustu- og uppsetningaraðilar sem eru þegar að nýta þessar greiðslulausnir í tilboðum í hleðslukerfi húsfélaga eru Hleðsluvaktin, Tæknivit, Bergrisi, Rafsel og Faradice. Eftir því sem þjónustunni vex fiskur um hrygg gerum við ráð fyrir að fleiri þjónustuaðilar bætist í hópinn,“ segir Bjarni G. Hjarðar, sérfræðingur og ráðgjafi hjá Eignaumsjón.
Úttekt á hleðsluaðstöðu og framkvæmdaáætlun
Fyrsta skrefið í þjónustu Eignaumsjónar er hlutlaus og fagleg úttekt á mögulegu hleðslukerfi hússins og gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlunar. Félagið hefur þegar gert á þriðja tug úttekta og á annan tug eru í vinnslu.
Í framhaldi af úttektum gerir Eignaumsjón verðathugun og aflar tilboða í hleðslukerfi fyrir þær húsfélagsstjórnir sem þess óska, aðstoðar við val á hentugasta hleðslukerfi miðað við þarfir viðkomandi húsfélags og fylgir eftir uppsetningu og innleiðingu meðal íbúa.
Félagið tryggir einnig endurgreiðslu virðisaukaskatts, eins og af öðrum framkvæmdum og annast umsóknir um styrki ef við á.
Sjálfvirk innheimtuþjónusta
Þegar hafa 10 af þeim húsfélögum, sem Eignaumsjón vann úttekt fyrir á uppsetningu rafhleðslukerfa, ákveðið að fela Eignaumsjón að sjá um sjálfvirka innheimtu gjalda vegna rafbílahleðslunnar.
Ábyrgð á innheimtunni færist þá frá stjórn viðkomandi húsfélags til Eignaumsjónar sem annast aflestur notkunar og útbýr reikning mánaðarlega. Kostnaðurinn færist á húsgjaldareikning viðkomandi notanda ef húsfélagið er í þjónustu hjá Eignaumsjón og er án álags á raforkunotkun bíleigenda.
„Sjálfvirka innheimtuþjónustan getur einnig nýst félögum sem eru ekki í húsfélagsþjónustu hjá Eignaumsjón og er þá útbúinn sérreikningur á viðkomandi notanda og krafa stofnuð í banka eins og algengt er,“ bætir Bjarni við.
Heildarumsjón með rafhleðslukerfum húsfélaga
Sjö stór húsfélög í húsfélagaþjónustu hjá Eignaumsjón hafa svo tekið skrefið alla leið, ef svo má að orði komast. Þessi sjö félög hafa samþykkt að Eignaumsjón hafi heildarumsjón með rekstri og viðhaldi hleðslukerfa viðkomandi húsfélaga. Þjónustusamningur fyrir fimm þeirra liggur fyrir og gert ráð fyrir að fleiri klárist fljótlega.
„Rafhleðslukerfin í þessum húsfélögum jafna álagi og bregðast við bæði afltoppum og yfirálagi á heimtaug. Kerfin eru að fullu snjallvædd sem tryggir einnig nákvæma skrá um notendur og notkun, enda er það forsenda fyrir réttri og sanngjarnri innheimtu. Þjónustuvakt vegna bilana og þjónustubeiðna er alla daga vikunnar og reglulegt mat gert á afköstum og gæðum kerfa, ásamt árlegri úttekt á orkukostnaði frá smásölum,“ segir Bjarni G. Hjarðar, sérfræðingur Eignaumsjónar í uppsetningu hleðslukerfa rafbíla í fjölbýlishúsum, að lokum.
Greinin birtist í desemberútgáfu Sóknarfæris.