Rafrænir fundir
Vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og óvissu sem ríkir vegna kórónaveirufaraldursins var lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 breytt vorið 2021 og húsfélögum heimilt að halda rafræna húsfundi og nýta rafræn skjöl og tölvupóst í samskiptum milli húsfélaga og félagsmanna.
Í ljósi þessara breytinga býður Eignaumsjón nú í samráði við stjórnir húsfélaga í þjónustu hjá fyrirtækinu upp á blandaða aðalfundi! Sumir þátttakendur geta þá mætt á fundarstað en aðrir taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.
Hvernig á að taka þátt í aðalfundi rafrænt?
Eigendur í viðkomandi húsfélagi sem vilja mæta rafrænt á aðalfund í sínu húsfélagi þurfa að hafa aðgang að tölvu með hljóðnema og hátalara, nettengingu og netvafra en vefmyndvél er ekki nauðsynleg.
Fundarboð berst að lágmarki með átta daga fyrirvara og þurfa þátttakendur sem ætla að mæta rafrænt að skrá sig inn á fundinn með dagsfyrirvara, til að hægt verði að undirbúa rafræna þátttöku á fundinum á sem skilvirkastan hátt.
Skráningin fer fram í Húsbók húsfélagsins á www.eignaumsjon.is með rafrænum skilríkjum í snjallsíma eða íslykli. Viðkomandi gefur upp netfang ef það vantar, opnar því næst flipann “Næsti fundur” á vefstikunni vinstra megin í Húsbókinni og bókar þar rafræna þátttöku. Í framhaldinu fær viðkomandi tölvupóst á boðuðum fundardegi með hlekk til að mæta rafrænt á fundinn.
Við skráningu geta þátttakendur prófað hvort þeir heyri hljóð og hljóðnemi virki. Þátttakendur geta einnig skráð sig inn sem gestur og þarf þá viðkomandi að skrá inn fullt nafn til að þekkjast á fundinum.