„Til skamms tíma hefur verið vöntun á þrifaþjónustu fyrir djúpgáma en nokkur fyrirtæki eru farin að bjóða upp á slík þrif og því getum við hjá Eignaumsjón nú aðstoðað húsfélög við að fá tilboð í að þrífa þessi risastóru sorpílát,“ segir Guðmundur Orri Arnarson, umsjónarmaður fasteigna hjá Eignaumsjón.
Djúpgámarnir eru nýjung í sorphirðu sem er að ryðja sér til rúms hérlendis, sérstaklega í nýjum og nýlegum fjölbýlishúsum og miðað við þann vöxt sem hefur verið í byggingu fjölbýlishúsa og fjölda djúpgáma sem settir eru niður á hverju ári blasir við að þessi þrifaþjónusta verði nauðsynlegur hluti af rekstri húsfélaga í framtíðinni.
Segja má að djúpgámar séu neðanjarðarsorpgeymslur sem komið er fyrir utan við fjölbýlishús og oftar en ekki eru þeir læstir, þannig að aðrir en íbúar viðkomandi húss geta ekki hent rusli í þá. Djúpgámarnir eru að jafnaði 3-5 rúmmetrar að stærð og eru þeir losaðir með þar til gerðum sorpbílum. Tíðni losanna fylgir sorphirðudagatali viðkomandi sveitarfélags og algengast er, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, að flokkunarlínur djúpgáma fjölbýlishúsa séu lífrænn úrgangur, blandað sorp, pappi og plast.
„Töluvert hefur verið um að íbúar í húsfélögum kvarti um ólykt, flugur og óþrifnað í kringum djúpgáma en erfitt hefur verið að útvega þrif, svipað og gert er með sorptunnur einu sinni til tvisvar á ári,“ segir Orri og bætir við að hann sé sannfærður um að djúpgámaþrifin séu komin til að vera, hvort sem húsfélög velja að þrífa sína djúpgáma einu sinni eða tvisvar á ári.
„Við hjá Eignaumsjón getum aðstoðað húsfélög sem eru í leit að þrifum á djúpgámum, sem og hverskyns annarri þjónustu. Heyrið bara í þjónustuverinu okkar – í síma 585-4800, í netspjalli á www.eignaumsjon.is eða með því að senda tölvupóst á thjonusta@eignaumsjon.is – og láttu okkur hjálpa þínu húsfélagi.“