Uppbygging nýrrar íbúðarbyggðar á Traðarreitnum við Digranesveg í Kópavogi er óðum að taka á sig mynd. Fyrstu íbúarnir fluttu inn síðsumars og deildaskipt heildarhúsfélag er tekið til starfa fyrir reitinn og verður starfsemi félagsins virkjuð í takt við uppbyggingu og afhendingu eigna.
Íbúðirnar á reitnum verða samtals 180 talsins í tveimur byggingum, fjögurra og fimm hæða háum. Undir húsunum er samtengdur bílakjallari, bílastæði fylgir öllum íbúðum og mögulegt er að kaupa viðbótarstæði. Sólríkur og skjólgóður inngarður er á milli húsanna með leiktækjum, gróðri og aðstöðu fyrir iðandi mannlíf. Þá er öll þjónusta í seilingarfjarlægð, bæði skólar, verslun, sundlaug, menning og almenningssamgöngur.
Allar íbúðir verða tilbúnar til afhendingar í desember
Byggingarframkvæmdir fóru af stað sumarið 2022 eftir langan og góðan undirbúning. Fyrstu íbúarnir byrjuðu að flytja inn síðsumars í fyrra húsið, við Álftröð 1-7 og Háveg 2-4, þar sem eru samtals 118 íbúðir. Framkvæmdir eru á lokametrunum við seinna húsið, sem stendur við Skólatröð 2-8. Þar eru 62 íbúðir og byrjaði afhending fyrstu íbúðanna nú um mánaðamótin. Þá er bílakjallarinn kominn í gagnið og frágangi að mestu lokið á inngarðinum. Allar íbúðir á reitnum verða tilbúnar til afhendingar í desember á þessu ári og framkvæmdum þá lokið.
JÁVERK annast byggingarframkvæmdir og er lóðarhafi og er nánari upplýsingar um verkefnið að finna á heimasíðunni https://digranes.is/.
Markmiðið að búa til gott samfélag
„Það er vel að verki staðið á Traðarreitnum að mínu mati, íbúðirnar eru svansvottaðar, staðsetningin góð, bílastæði eru með hverri íbúð og hægt að kaupa viðbótarstæði ef þess er þörf, sem ætti að henta mörgum,“ segir Hallur Guðjónsson, á sölu- og samskiptasviði Eignaumsjónar, sem aðstoðaði JÁVERK og aðra eigendur við að stofna húsfélag fyrir Traðarreitinn.
„Húsin þarna eru skilgreind sem eitt mannvirki í eignaskiptasamningi með fjórum matshlutum; húsin tvö, bílakjallarinn og djúpgámar, á sameiginlegri lóð og því var best að okkar mati að stofna þarna eitt deildaskipt heildarhúsfélag með það að markmiði að búa til gott og farsælt samfélag, í stað þess að vera með þrjú húsfélög með tilheyrandi fjölda stjórnarmanna og meiri kostnaði fyrir eigendur. Heildarfélagið heldur þá utan um hagsmuni heildarinnar; ytra byrði, lóðina og bílakjallarann, en deildirnar gæta hagsmuna eigenda og notenda í hvoru húsanna,“ segir Hallur og bætir við að þannig eigi hagsmunir allra viðkomandi að vera tryggðir.
Húsfélagið, Traðarreitur 1, er í þjónustuleið Þ-2; fjármál og fundir hjá Eignaumsjón og það verður einnig í vikulegri Húsumsjón, þegar byggingarframkvæmdum er lokið.