Það er dýrt að sóa heitu vatni!
Verð á heitu vatni til húshitunar hefur hækkað um 29% á höfuðborgarsvæðinu síðustu þrjú árin samkvæmt kostnaðartölum sem Eignaumsjón hefur tekið saman úr rekstri húsfélaga í þjónustu hjá félaginu. Til mikils er því að vinna fyrir eigendur í fjöleignarhúsum að vel sé fylgst með ástandi hitagrinda og snjóbræðslukerfa. Það tryggir skilvirka orkunotkun og lægri orkukostnað.
Frá ársbyrjun 2022 til loka júlí 2024 hefur verð á rúmmetra af heitu vatni – með orkuskatti og virðisaukaskatti – hækkað úr rúmlega 159 krónum í ríflega 205 krónur, sem er nærri 29% hækkun.
Bakreikningur upp á rúma milljón
„Þessi verðhækkun á heitavatninu er að auka verulega kostnað húsfélaga þegar bilanir verða í hitakerfum. Til dæmis fékk eitt húsfélag í 90 íbúða húsi bakreikning upp á rúmlega eina milljón króna í byrjun ársins, eftir að hitakerfi í einum af sex stigagöngum bilaði,“ segir Guðmundur Orri Arnarson hjá Eignaumsjón. Húsfélagið í ofangreindu dæmi er í Húsumsjón, sérþjónustu hjá Eignaumsjón, sem felur m.a. í sér reglulegt eftirlit með öllum hitakerfum og öðrum tækjabúnaði í sameign og var strax farið í umfangsmikla bilanaleit. Í framhaldinu var öll hitagrindin í umræddum stigagangi tekin í gegn og komst þá heitavatnsnotkunin aftur í eðlilegt horf.
Hitavaktin – mánaðarlegt eftirlit með hita- og snjóbræðslukerfum
Vegna mikillar fjölgunar fyrirspurna um aðstoð við að meta ástand hitagrinda og snjóbræðslukerfa býður Eignaumsjón nú húsfélögum – hvort sem þau eru í þjónustu hjá Eignaumsjón eða ekki – upp á mánaðarlega skoðun í tæknirýmum húsa til að tryggja að þessi kerfi starfi á fullum afköstum og án vandamála.
„Það er orðið dýrt að sóa heitu vatni og sjálfbær hitastýring og skilvirkni í sameign húsfélaga skiptir alla eigendur máli. Reglubundið eftirlit sparar heitt vatn, dregur úr sóun og lækkar rekstrarkostnað húsfélagsins,“ segir Guðmundur Orri og hvetur öll sem eru áhugasöm um þessa nýju áskriftarþjónustu til að hafa samband á netfanginu thjonusta@eignaumsjon.is, í netspjall, eða með því að hringja í síma 585-4800.