
Ráðgjöf og faglegt eftirlit með kerfum bygginga og orkunotkun
EignaVaktin er ný áskriftarþjónusta sem stendur öllum húsfélögum og rekstrarfélögum atvinnuhúsa til boða, óháð því hvort þau eru fyrir í rekstrarumsjón hjá Eignaumsjón eða ekki. Þjónustan felur í sér mánaðarlegt eftirlit fagfólks með öllum kerfum í tæknirýmum fjöleignarhúsa til að tryggja að þau starfi á fullum afköstum og að orkunýting sé í samræmi við tilætluð gæði húseignarinnar.
„Verð á orku, bæði heitu vatni og rafmagni, hefur hækkað umtalsvert á liðnum árum og því er til mikils að vinna fyrir eigendur í fjöleignarhúsum að reglulega sé fylgst með öllum kerfum hússins, s.s. hitagrindum, snjóbræðslu, loftræstikerfum, rafbílahleðslu og lýsingu, til að bæta orkunýtingu og draga úr sóun,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
„Þessari áskriftarþjónustu okkar er ætlað að koma til móts við þarfir eigenda og íbúa/leigjenda í meðalstórum og stærri hús- og rekstrarfélögum þar sem eru oftar en ekki stór tæknirými með flóknum búnaði sem þarf að virka hnökralaust og því vart á færi leikmanna að hafa eftirlit með honum,“ bætir Daníel við.
Þríþætt þjónusta – í heild eða hlutum
EignaVaktin er þríþætt áskriftarþjónusta sem felur í sér faglegt eftirliti með kerfum bygginga og úttekt á orkunýtingu. Stjórnir hús- og rekstrarfélaga geta gerst áskrifendur að þjónustunni í heild eða þá að einstökum þáttum hennar eftir því hvað hentar. Gerður er árssamningur með þriggja mánaða uppsagnarfresti eftir fyrstu 12 mánuðina. Veittur er 20% afsláttur ef viðkomandi eign er í þjónustuleiðum A-2, Þ-3 eða Húsumsjón hjá Eignaumsjón.
„Við byrjuðum að bjóða upp á Hitavaktina, faglegt eftirlit með hita- og snjóbræðslukerfum í fyrrahaust og nú bætist Orkuvaktin við, sem er viðbót við Hitavaktina og nær líka til faglegs eftirlits með rafmagnsnotkun og loftræstikerfum fjölbýlishúsa.
Þriðji þáttur þjónustunnar er ráðgjöf um orkunýtingu bygginga sem við köllum Góða húsið. Þá er gerð verkfræðilegri úttekt, sem þróuð er af Bjarna G. Hjarðar, byggingar- og umhverfisverkfræðingi og sérfræðingi okkar í vöruþróun, á orkunýtingu viðkomandi fjöleignarhúss. Úttektin byggir bæði á heimsókn og skoðun sérfræðings ásamt fyrirliggjandi gögnum, s.s. teikningum, útgjöldum o.fl. Fylgst er með orkunotkun hússins í þrjá mánuði og lagt á mat á orkunýtingu þess miðað við hús sem eru á sama aldri og sambærileg að gerð,“ segir Daníel.
Í framhaldinu eru settar fram tillögur um úrbætur og kostnaðarmat í skýrslu til stjórnar og gefið út orkuskírteini Eignaumsjónar, Góða húsið – orkunýting fyrir viðkomandi fjöleignarhús sem staðfestingu á metinni orkunýtingu hússins í samanburði við önnur hús í viðskiptum við Eignaumsjón.
Góð orkunýting -verðmætari eign
„Við viljum vera þekkt fyrir framúrskarandi rekstur og umsjón með húsrekstrarfélögum og fasteignum sem þeim tengjast. Því höfum við stefnt lengi að því að gefa út orkuskírteini fyrir hús sem eru í þjónustu hjá okkur,“ segir Daníel og áréttar að nafnið á vottuninni sé í takt við framtíðarsýn Eignaumsjónar um Góða húsið – grænt og vænt!
„Fasteignir með góða orkunýtingu eru verðmætari en aðrar fasteignir og slík vottun mun að okkar mati m.a. leiða til hærra söluverð þegar slík vottun hefur fest sig í sessi. Jafnframt má ætla að söluverð vottaðra eigna lækki hægar en ella, sem og að leiguverð slíkra eigna verði einnig hærra, þar sem rekstrarkostnaður er lægri og innivist yfirleitt betri og heilnæmari,“ segir framkvæmdastjóri Eignaumsjónar að lokum.
EignaVaktin – í hnotskurn
Hitavaktin – faglegt eftirlit með hita- og snjóbræðslukerfum:
- Mánaðarlegar heimsóknir, þar af ein á ári með löggiltum pípulagningameistara.
- Skýrsla eftir hverja heimsókn – birt í Húsbók.
- Viðbragð: Útkall þjónustuaðila í samráði við húsfélag.
Orkuvaktin – faglegt eftirlit með rafmagnsnotkun og loftræstikerfum, tviðbótarþjónusta við Hitavaktina:
- Mánaðarlegar heimsóknir, þar af ein á ári með löggiltum iðnmeistara og löggiltum pípulagningameistara.
- Skýrsla eftir hverja heimsókn – birt í Húsbók.
- Viðbragð: Útkall þjónustuaðila í samráði við húsfélag.
- Rýni sérfræðings, þ.m.t. hitamyndir og samanburður við dæmigerð hús (árlega).
Góða húsið – ráðgjöf:
- Verkfræðileg úttekt á orkunýtingu húss.
- Skýrsla með tillögum að úrbótum.
- Orkuskírteini.