Framúrskarandi fyrirtæki annað árið í röð

Framúrskarandi fyrirtæki annað árið í röð

Eignaumsjón er meðal þeirra tveggja prósenta íslenskra fyrirtækja sem teljast Framúrskarandi fyrirtæki árið 2025. Þetta er í annað sinn sem félagið hlýtur þessa viðurkenningu en framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að mati Creditinfo að byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og vera í hópi þeirra fyrirtækja sem er best treystandi í viðskiptum á Íslandi.

Meðal skilyrða sem fyrirmyndarfyrirtæki þurfa að uppfylla er að þau hafi náð rekstrarhagnaði yfir þriggja ára tímabil, rekstrarhagnaður (EBIT) og ársniðurstaða hafi verið jákvæð reikningsárin 2022-2024, ársreikningi hafi verið skilað á tilskyldum tíma lögum samkvæmt og að eiginfjárhlutfall sé að minnsta kosti 20%.

Áherslur okkar að skila árangri

„Það er sannarlega ánægjulegt fyrir okkur að hljóta þessa viðurkenningu aftur og undirstrikar að rekstraráherslur okkar eru að skila árangri,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.

„Reksturinn er krefjandi og við höfum verið í töluverðum umbreytingum, sem taka auðvitað aðeins í, en styrk afkoma tryggir að félagið hefur tök á að vaxa og þroskast,“ segir Daníel og vísar m.a. til þess að Eignaumsjón er að stækka töluvert með sameiningu við fyrirtækið Rekstrarumsjón nú um mánaðamótin.

Vel í stakk búin að takast á við áskoranir

„Við teljum okkur vel í stakk búin að takast á við áskoranir sem því fylgja, verandi á liðnum misserum búin að auka tæknilega getu okkar með öflugri tölvukerfum til að geta haldið enn betur utan um þjónustu í kringum bakvinnslu, greiðslukerfi, bókhald og önnur verkefni fyrir okkar viðskiptavini, segir Daníel. Hann áréttar líka að það sé gæfa fyrirtækisins að hafa tekist að laða til sín hæfileikaríkt og gott starfsfólk sem hafi skilað sér í jákvæðum og góðum starfsanda.

Listinn yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2025 var gerður opinber á sérstökum vef á visir.is í dag og viðurkenningarnar voru afhentar síðdegis við athöfn í Laugardalshöll.