Brunavarnir í fjölbýlishúsum og bílageymslum
„Brunavarnir eru lykilatriði í öryggi allra húsa og við vöktum þær og yfirförum í hverri heimsókn til viðskiptavina okkar sem eru í Húsumsjón,“ segir Sigurður Lárus Fossberg, umsjónarmaður fasteigna hjá Eignaumsjón.
„Það sem við skoðum, samkvæmt lista frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, er að allar flóttaleiðir séu greiðfærar og að öll öryggisljós, svokölluð útljós, séu í lagi og sýnileg. Við tékkum einnig hvort hurðarpumpur virki, brunadyr lokist hindrunarlaust og að dyr og björgunarop geti opnast innan frá án lykils eða verkfæra,“ segir reynsluboltinn Sigurður Lárus, sem starfaði hjá Slökkviliði Akureyrar og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í 35 ár, áður en hann kom til starfa hjá Eignaumsjón.
Slökkvitæki er ekki hurðastoppari
Alltaf er líka tékkað hvort slökkvitæki, eldvarnateppi og brunaslöngur séu aðgengileg og í lagi, að reykskynjarar virki og að brunaviðvörunarkerfi sýni að allt sé í lagi.
„Það hefur sýnt sig í þessum heimsóknum að allur gangur er á uppsetningu og frágangi slökkvitækja, sem hefur kallað á úrbætur af okkar hálfu.“ Nefnir Sigurður að slökkvitæki eru oft frístandandi, ekki veggföst, og jafnvel notuð sem hurðastoppar. Einnig eru dæmi um að slökkvitæki hafi verið fest hátt upp á veggi, svo illmöguleg hefði verið að ná til þeirra ef þess hefði þurft!
Greiðar flóttaleiðir geta skipt sköpum
„Við fylgjumst líka vel með því að umgengni sé góð, bæði innan húss og utan, í sameign í húsfélögum sem eru í Húsumsjón hjá okkur, enda getur það skipt sköpum að flóttaleiðir séu greiðar ef eldsvoðar verða,“ bætir Sigurður við. Það eigi við um bæði stiga- og geymsluganga, bílageymslur og önnur sameignarrými.
„Það er allt of algengt að íbúar séu með skófatnað, reiðhjól og jafnvel plöntur við sinn inngang á stigagöngum, sem er alls ekki heimilt. Ef eldur kemur upp er hver sekúnda dýrmæt og hlutir í gangvegi geta hægt á fólki og jafnvel lokað fyrir leiðir slökkviliðs.“
Sama gildir um geymsluganga og þvottahús í sameign. Þar má ekkert hindra aðgengi eða loka fyrir neyðarútganga. Í þvottahúsum þurfi líka að passa að mögulegur eldsmatur, s.s. hreinsiefni eða gamall fatnaður, safnist ekki þar upp. Ekkert dót á að vera á geymslugöngum og eldvarnahurðir lokaðar, því eldur í slíku rými geti dreifst ótrúlega hratt.
„Öll ruslsöfnun í sameign stóreykur hættu á íkveikjum og því göngum við hart eftir því að íbúðar fjarlægi dót sem skilið hefur verið eftir í sameign, ella förgum við því,“ segir Sigurður.
Bara skráð ökutæki og bílatengdir aukahlutir
Bílageymslur eru sérstök brunahólf og samkvæmt byggingarreglugerð er einungis heimilt að geyma þar skráð ökutæki og bílatengda aukahluti. Almennt er miðað við að þar megi þá geyma bíla og mótorhjól og smávegis af öðru bílatengdu dóti.
Samkvæmt sömu reglugerð er óheimilt að geyma í bílageymslum húsgögn, búslóð, barnavagna, raftæki, fatapokar o.fl., sem getur flýtt fyrir bruna, truflað öryggis- og slökkvikerfi og valdið þar með hættu fyrir alla íbúa. Þá er almennt bannað að geyma þar eldfim efni, s.s. bensín, gasílát, spreybrúsa eða önnur eldfim efni. Ofangreindar takmarkanir byggja fyrst og fremst á öryggissjónarmiðum, einkum brunavörnum og má líka minna á að rafmagnshlaupahjól, rafmagnshjól o.fl. má ekki hlaða í sameiginlegum bílakjöllurum, nema sérútbúin hleðslusvæði séu til staðar.
Bílar ekki brunatryggðir í sameiginlegri húseigendatryggingu
„Það er ekki til neinn tæmandi listi yfir hvað má eða má ekki geyma í bílageymslum, en þær reglur sem gilda eru byggingar- og brunavarnareglugerðir og reglur viðkomandi húsfélags, sem oft eru strangari en almennar reglur, ,“ segir Sigurður og bætir við að tryggingarfélög geti líka sett skilyrði fyrir tryggingargildi, ef geymsla er óviðeigandi.
„Við ráðleggjum því fólki að kynna sér vel bæði húsreglur, brunavarnaáætlun og tryggingaskilmála, áður en það geymir eitthvað annað en ökutæki í bílageymslu. Við viljum líka benda íbúum á að brunatryggja bílana sína. Það vita ekki allir að bílar eru ekki brunatryggðir í bílageymslum, nema að þeir séu kaskótryggðir eða brunatryggðir sérstaklega,“ segir Sigurður Lárus Fossberg að lokum, slökkviliðsmaður til áratuga og umsjónarmaður fasteigna hjá Eignaumsjón.