Brunavarnir í fjölbýlishúsum og bílageymslum

Brunavarnir í fjölbýlishúsum og bílageymslum

„Brunavarnir eru lykilatriði í öryggi allra húsa og við vöktum þær og yfirförum í hverri heimsókn til viðskiptavina okkar sem eru í Húsumsjón,“ segir Sigurður Lárus Fossberg, umsjónarmaður fasteigna hjá Eignaumsjón.

„Það sem við skoðum, samkvæmt lista frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, er að allar flóttaleiðir séu greiðfærar og að öll öryggisljós, svokölluð útljós, séu í lagi og sýnileg. Við tékkum einnig hvort hurðarpumpur virki, brunadyr lokist hindrunarlaust og að dyr og björgunarop geti opnast innan frá án lykils eða verkfæra,“ segir reynsluboltinn Sigurður Lárus, sem starfaði hjá Slökkviliði Akureyrar og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í 35 ár, áður en hann kom til starfa hjá Eignaumsjón.

Slökkvitæki er ekki hurðastoppari

Alltaf er líka tékkað hvort slökkvitæki, eldvarnateppi og brunaslöngur séu aðgengileg og í lagi, að reykskynjarar virki og að brunaviðvörunarkerfi sýni að allt sé í lagi.

„Það hefur sýnt sig í þessum heimsóknum að allur gangur er á uppsetningu og frágangi slökkvitækja, sem hefur kallað á úrbætur af okkar hálfu.“ Nefnir Sigurður að slökkvitæki eru oft frístandandi, ekki veggföst, og jafnvel notuð sem hurðastoppar. Einnig eru dæmi um að slökkvitæki hafi verið fest hátt upp á veggi, svo illmöguleg hefði verið að ná til þeirra ef þess hefði þurft!

Greiðar flóttaleiðir geta skipt sköpum

„Við fylgjumst líka vel með því að umgengni sé góð, bæði innan húss og utan, í sameign í húsfélögum sem eru í Húsumsjón hjá okkur, enda getur það skipt sköpum að flóttaleiðir séu greiðar ef eldsvoðar verða,“ bætir Sigurður við. Það eigi við um bæði stiga- og geymsluganga, bílageymslur og önnur sameignarrými.

„Það er allt of algengt að íbúar séu með skófatnað, reiðhjól og jafnvel plöntur við sinn inngang á stigagöngum, sem er alls ekki heimilt. Ef eldur kemur upp er hver sekúnda dýrmæt og hlutir í gangvegi geta hægt á fólki og jafnvel lokað fyrir leiðir slökkviliðs.“

Sama gildir um geymsluganga og þvottahús í sameign. Þar má ekkert hindra aðgengi eða loka fyrir neyðarútganga. Í þvottahúsum þurfi líka að passa að mögulegur eldsmatur, s.s. hreinsiefni eða gamall fatnaður, safnist ekki þar upp. Ekkert dót á að vera á geymslugöngum og eldvarnahurðir lokaðar, því eldur í slíku rými geti dreifst ótrúlega hratt.

„Öll ruslsöfnun í sameign stóreykur hættu á íkveikjum og því göngum við hart eftir því að íbúðar fjarlægi dót sem skilið hefur verið eftir í sameign, ella förgum við því,“ segir Sigurður.

Bara skráð ökutæki og bílatengdir aukahlutir

Bílageymslur eru sérstök brunahólf og samkvæmt byggingarreglugerð er einungis heimilt að geyma þar skráð ökutæki og bílatengda aukahluti. Almennt er miðað við að þar megi þá geyma bíla og mótorhjól og smávegis af öðru bílatengdu dóti.

Samkvæmt sömu reglugerð er óheimilt að geyma í bílageymslum húsgögn, búslóð, barnavagna, raftæki, fatapokar o.fl., sem getur flýtt fyrir bruna, truflað öryggis- og slökkvikerfi og valdið þar með hættu fyrir alla íbúa. Þá er almennt bannað að geyma þar eldfim efni, s.s. bensín, gasílát, spreybrúsa eða önnur eldfim efni. Ofangreindar takmarkanir byggja fyrst og fremst á öryggissjónarmiðum, einkum brunavörnum og má líka minna á að rafmagnshlaupahjól, rafmagnshjól o.fl. má ekki hlaða í sameiginlegum bílakjöllurum, nema sérútbúin hleðslusvæði séu til staðar.

Bílar ekki brunatryggðir í sameiginlegri húseigendatryggingu

„Það er ekki til neinn tæmandi listi yfir hvað má eða má ekki geyma í bílageymslum, en þær reglur sem gilda eru byggingar- og brunavarnareglugerðir og reglur viðkomandi húsfélags, sem oft eru strangari en almennar reglur, ,“ segir Sigurður og bætir við að tryggingarfélög geti líka sett skilyrði fyrir tryggingargildi, ef geymsla er óviðeigandi.

„Við ráðleggjum því fólki að kynna sér vel bæði húsreglur, brunavarnaáætlun og tryggingaskilmála, áður en það geymir eitthvað annað en ökutæki í bílageymslu. Við viljum líka benda íbúum á að brunatryggja bílana sína. Það vita ekki allir að bílar eru ekki brunatryggðir í bílageymslum, nema að þeir séu kaskótryggðir eða brunatryggðir sérstaklega,“ segir Sigurður Lárus Fossberg að lokum, slökkviliðsmaður til áratuga og umsjónarmaður fasteigna hjá Eignaumsjón.

Huga þarf stöðugt að brunavörnum í fjölbýlishúsum

Huga þarf stöðugt að brunavörnum í fjölbýlishúsum

Mikilvægt er að huga stöðugt að brunavörnum í fjölbýlishúsum sem og íbúðarhúsum almennt til að stuðla að öryggi íbúa. Mörg dæmi eru um að aukin hætta hafi skapast í eldsvoðum, bæði vegna þess að öryggismálum hafi ekki verið sinnt sem skyldi og einnig vegna slæmrar umgengni í sameign sem hindraði eða tafði umferð reykkafara og íbúa á flótta.

Mörg dæmi sýna að öryggisbúnaður, s.s. reykskynjarar, slökkvitæki, brunaviðvörunarkerfi o.fl., hefur bjargað mannslífum þegar eldur hefur komið upp. Reykskynjarar eiga að vera á öllum hæðum í stigagangi og í geymslugöngum. Æskilegt er að þeir séu samtengdir. Handslökkvitæki á að vera í öllum íbúðum eða eldvarnarteppi í hverri íbúð og handslökkvitæki í stigahúsi. Útgöngu- og neyðarlýsingar þurfa að vera á göngum og í stigahúsum og gasskynjari ætti að vera þar sem gas er geymt í geymslum.

Á hverju heimili ætti einnig að vera til flóttaáætlun ef kviknar í. Þar eru flóttaleiðir heimilisins kortlagðar og jafnframt þarf að tryggja að allt heimilisfólkið þekki þær.

Stigagangar eru flóttaleiðir í eldsvoðum

Mikilvægt er að tryggja öryggi í stigagöngum sem eru skilgreindir sem flóttaleiðir. Í sameign má t.d. alls ekki hengja upp eða safna saman hlutum, sem geta valdið hættu ef kviknar i þeim eða þeir truflað umferð í eldsvoða, t.d. reykkafara eða íbúa á flótta.

Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um brunavarnir kemur fram að hver íbúð, stigagangur og geymslugangur fyrir sig í fjöleignarhúsum eigi að vera sérstakt brunahólf, sem þoli eld í ákveðinn tíma, þannig að fólki sem þar er gefist tími til að komast út. Til að standast þær kröfur þurfa allar hurðir sem liggja að stigagangi að vera sjálflokandi og reykþéttar og þola bruna í a.m.k. 30- 60 mínútur. Hurðir að íbúðum eiga að hafa að minnsta kosti 30 mínútna brunaþol.

Staðsetning slökkvitækja skiptir máli í fjölbýlishúsum og er mælt með því að hafa slökkvitæki við alla útganga, sem og á göngum eða stigapöllum. Það skiptir líka máli hvernig slökkvitæki eru hengd upp en þó nokkuð er um að Húsumsjónarmenn Eignaumsjónar þurfi að breyta uppsetningu og/eða staðsetningu slökkvitækja í sameignum húsa sem  eru í Húsumsjón, til að tryggja að auðveldara verði að grípa til þeirra ef þess gerist þörf.

Svalir einnig mikilvægur öryggisþáttur

Svalir eru einnig mikilvægur öryggisþáttur í fjöleignarhúsum því minnst tvær flóttaleiðir þurfa að vera frá hverri íbúð. Ef ekki er hægt að nota stigagang geta svalir verið trygg flóttaleið. Það þarf að vera hægt að komast af þeim með auðveldum hætti, annað hvort af eigin rammleik eða með aðstoð slökkviliðs. Gasgrill á svölum þurfa að vera staðsett þannig að þau valdi ekki brunahættu. Ef svalalokanir eru til staðar þurfa þær að vera með þannig opnunarbúnaði  að auðvelt sé að bjarga fólki af svölunum.

Brunavarnir í geymslum og bílageymslum

Oftar en ekki er að finna í geymslum fjölbýlishúsa töluvert af brennanlegum efnum. Því er mikilvægt að aðskilja geymsluganga frá stigagöngum með eldtraustri hurð. Ekki skal vera með hluti í geymslum sem geta valdið hættu ef eldur kemur upp, s.s. gaskúta, flugelda, né heldur bensín eða olíur sem nemur meiru magni en fimm lítrum.

Í sameiginlegum bílageymslum má ekki geyma neitt annað en bíla og það sem þeim tilheyrir, s.s. dekk, bón og annað smádót. Umgangur milli bílageymslu og stigahúss á að vera um svokallaða „slúsu“. Þar skal vera eldvarnahurð úr stáli bílageymslu megin og úr timbri stigagangs megin.

Úttekt SHS á eldvörnum fjölbýlishúsa

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins býður upp á skoðun á eldvörnum í sameign fjölbýlishúsa ef stjórn húsfélags óskar eftir. Teikningar að húsi þurfa að liggja fyrir þegar skoðun fer fram. Að lokinni skoðun fær fulltrúi húsfélagsins afhentar skriflegar athugasemdir. Þær ber að líta á sem leiðbeiningar en ekki kröfur. Forvarnasvið slökkviliðsins hvetur þó engu að síður til þess að tekið sé mið af þessum athugasemdum og ráðist í úrbætur sem fyrst ef þörf er talin á þeim.