Nov 4, 2025 | Fréttir
Uppbygging nýrrar íbúðarbyggðar á Traðarreitnum við Digranesveg í Kópavogi er óðum að taka á sig mynd. Fyrstu íbúarnir fluttu inn síðsumars og deildaskipt heildarhúsfélag er tekið til starfa fyrir reitinn og verður starfsemi félagsins virkjuð í takt við uppbyggingu og afhendingu eigna.
Íbúðirnar á reitnum verða samtals 180 talsins í tveimur byggingum, fjögurra og fimm hæða háum. Undir húsunum er samtengdur bílakjallari, bílastæði fylgir öllum íbúðum og mögulegt er að kaupa viðbótarstæði. Sólríkur og skjólgóður inngarður er á milli húsanna með leiktækjum, gróðri og aðstöðu fyrir iðandi mannlíf. Þá er öll þjónusta í seilingarfjarlægð, bæði skólar, verslun, sundlaug, menning og almenningssamgöngur.
Allar íbúðir verða tilbúnar til afhendingar í desember
Byggingarframkvæmdir fóru af stað sumarið 2022 eftir langan og góðan undirbúning. Fyrstu íbúarnir byrjuðu að flytja inn síðsumars í fyrra húsið, við Álftröð 1-7 og Háveg 2-4, þar sem eru samtals 118 íbúðir. Framkvæmdir eru á lokametrunum við seinna húsið, sem stendur við Skólatröð 2-8. Þar eru 62 íbúðir og byrjaði afhending fyrstu íbúðanna nú um mánaðamótin. Þá er bílakjallarinn kominn í gagnið og frágangi að mestu lokið á inngarðinum. Allar íbúðir á reitnum verða tilbúnar til afhendingar í desember á þessu ári og framkvæmdum þá lokið.
JÁVERK annast byggingarframkvæmdir og er lóðarhafi og er nánari upplýsingar um verkefnið að finna á heimasíðunni https://digranes.is/.
Markmiðið að búa til gott samfélag
„Það er vel að verki staðið á Traðarreitnum að mínu mati, íbúðirnar eru svansvottaðar, staðsetningin góð, bílastæði eru með hverri íbúð og hægt að kaupa viðbótarstæði ef þess er þörf, sem ætti að henta mörgum,“ segir Hallur Guðjónsson, á sölu- og samskiptasviði Eignaumsjónar, sem aðstoðaði JÁVERK og aðra eigendur við að stofna húsfélag fyrir Traðarreitinn.
„Húsin þarna eru skilgreind sem eitt mannvirki í eignaskiptasamningi með fjórum matshlutum; húsin tvö, bílakjallarinn og djúpgámar, á sameiginlegri lóð og því var best að okkar mati að stofna þarna eitt deildaskipt heildarhúsfélag með það að markmiði að búa til gott og farsælt samfélag, í stað þess að vera með þrjú húsfélög með tilheyrandi fjölda stjórnarmanna og meiri kostnaði fyrir eigendur. Heildarfélagið heldur þá utan um hagsmuni heildarinnar; ytra byrði, lóðina og bílakjallarann, en deildirnar gæta hagsmuna eigenda og notenda í hvoru húsanna,“ segir Hallur og bætir við að þannig eigi hagsmunir allra viðkomandi að vera tryggðir.
Húsfélagið, Traðarreitur 1, er í þjónustuleið Þ-2; fjármál og fundir hjá Eignaumsjón og það verður einnig í vikulegri Húsumsjón, þegar byggingarframkvæmdum er lokið.
Oct 31, 2025 | Fréttir
Starfsfólk og skrifstofa Rekstrarumsjónar flytur í dag frá Bæjarhrauni 6 í Hafnarfirði að Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík. Sameinuð skrifstofa tekur formlega til starfa á mánudaginn, 3. nóvember 2025.
Eins og fram hefur komið var gengið frá kaupum Eignaumsjónar á Rekstrarumsjón fyrr í haust. Að undanförnu hefur verið unnið ötullega að því að samþætta starfsemi félaganna.
Öflugur liðsauki
„Það er ánægjulegt að fá þau Anítu Evu, Brimrúnu, Bryndísi, Davíð Arnar, Guðjón Geir, Helgu Soffíu, Hrafnhildi og Tinnu til liðs með okkur og bjóðum við þau hjartanlega velkomin,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
„Við hlökkum til að koma til liðs við Eignaumsjón og sinna áfram þar okkar góðu viðskiptavinum, sem og öðrum spennandi verkefnum,“ segja þær Helga Soffía og Hrafnhildur Guðjónsdætur, framkvæmdastjórar hjá Rekstrarumsjón. „Það er von okkar að þessi sameining félaganna gangi hratt og vel fyrir sig og verði öllum til hagsbóta.“
Hafa samband
Fyrst í stað verður hægt að hringja áfram í símanúmer Rekstrarumsjónar, 571-6770 og senda tölvupóst á netfangið umsjon@rekstrarumsjon.is. Unnið er að því að koma öllum gögnum og upplýsingum frá Rekstrarumsjón inn í verkumsjónarkerfi og vinnuferla Eignaumsjónar, þ. á m. inn í Húsbókina, mínar síður eigenda.
Jafnframt er hægt að vera í sambandi við Þjónustuver Eignaumsjónar á Suðurlandsbraut 30, sem er opið kl. 9-16 mánudaga til fimmtudaga og kl. 9-15 á föstudögum. Tekið er við erindum og fyrirspurnum í síma 585-4800, á netfanginu thjonusta@eignaumsjon.is og í netspjalli á www.eignaumsjon.is.
Oct 30, 2025 | Fréttir
Eignaumsjón er meðal þeirra tveggja prósenta íslenskra fyrirtækja sem teljast Framúrskarandi fyrirtæki árið 2025. Þetta er í annað sinn sem félagið hlýtur þessa viðurkenningu en framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að mati Creditinfo að byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og vera í hópi þeirra fyrirtækja sem er best treystandi í viðskiptum á Íslandi.
Meðal skilyrða sem fyrirmyndarfyrirtæki þurfa að uppfylla er að þau hafi náð rekstrarhagnaði yfir þriggja ára tímabil, rekstrarhagnaður (EBIT) og ársniðurstaða hafi verið jákvæð reikningsárin 2022-2024, ársreikningi hafi verið skilað á tilskyldum tíma lögum samkvæmt og að eiginfjárhlutfall sé að minnsta kosti 20%.
Áherslur okkar að skila árangri
„Það er sannarlega ánægjulegt fyrir okkur að hljóta þessa viðurkenningu aftur og undirstrikar að rekstraráherslur okkar eru að skila árangri,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
„Reksturinn er krefjandi og við höfum verið í töluverðum umbreytingum, sem taka auðvitað aðeins í, en styrk afkoma tryggir að félagið hefur tök á að vaxa og þroskast,“ segir Daníel og vísar m.a. til þess að Eignaumsjón er að stækka töluvert með sameiningu við fyrirtækið Rekstrarumsjón nú um mánaðamótin.
Vel í stakk búin að takast á við áskoranir
„Við teljum okkur vel í stakk búin að takast á við áskoranir sem því fylgja, verandi á liðnum misserum búin að auka tæknilega getu okkar með öflugri tölvukerfum til að geta haldið enn betur utan um þjónustu í kringum bakvinnslu, greiðslukerfi, bókhald og önnur verkefni fyrir okkar viðskiptavini, segir Daníel. Hann áréttar líka að það sé gæfa fyrirtækisins að hafa tekist að laða til sín hæfileikaríkt og gott starfsfólk sem hafi skilað sér í jákvæðum og góðum starfsanda.
Listinn yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2025 var gerður opinber á sérstökum vef á visir.is í dag og viðurkenningarnar voru afhentar síðdegis við athöfn í Laugardalshöll.
Oct 24, 2025 | Fréttir, Greinar
Bæði nýlegir og eldri úrskurðir kærunefndar húsamála staðfesta þá meginreglu að viðhald ytrabyrðis í fjölbýlishúsum sem eru eingöngu með íbúðum er á ábyrgð heildarhúsfélags, ekki einstakra húsfélagsdeilda, þó svo að fyrir liggi þinglýst samkomulag sem reyni að víkja frá þessari meginreglu laga um fjöleignarhús nr. 26 frá 1994.
Í nýlegu kærumáli var leitað til kærunefndar húsamála vegna þinglýsts samkomulags eigenda um uppskiptingu viðhalds utan húss, sem fól í sér að tilskyldar húsfélagsdeildir skyldu annast ytrabyrðisviðhald en ekki heildarfélag viðkomandi húss.
Ákvæði fjöleignahúsalaga ófrávíkjanleg
Það er niðurstaða kærunefndarinnar að umræddar fasteignir teljist vera eitt hús, í skilningi laga um fjöleignarhús og þar sem um sé að ræða hús með íbúðum eingöngu, sé eigendum almennt óheimilt að skipa málum sínum, réttindum og skyldum á annan veg en mælt er fyrir í fjöleignarhúsalögunum. Bent er á að samkvæmt lögunum skuli allir eigendur eiga rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameign og sameiginleg málefni er varða eiganda beint eða óbeint – og þar sem lögin séu ófrávíkjanleg hvað þetta varðar, beri að virða að vettugi ákvæði þinglýsts samkomulags eigenda um aðra tilhögun ákvarðanatöku og kostnaðarskiptingu viðhaldsframkvæmda. Taka þurfi ákvarðanir á vettvangi húsfélagsins alls, sbr. 4. málsgrein 39. greinar, þar sem segir að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á fundi eigenda, húsfundi.
Varðandi skiptingu kostnaðar, er áréttað að í 43. grein fjöleignarhúsalaganna sé kveðið á um að sameiginlegur kostnaður sé m.a. allur kostnaður er snerti sameign fjöleignarhúss, bæði innan húss og utan. Viðgerð á ytra byrði teljist sameiginlegur kostnaður og beri að fara með kostnaðarskiptingu samkvæmt lögum um fjöleignarhús, en ekki þinglýstu samkomulagi eigenda.
Eldri eignaskiptasamningar ekki alltaf i takt við gildandi lög
Niðurstaða kærunefndar húsamála í ofangreindu máli er í takt við fyrri úrskurði nefndarinnar í svipuðum eða sambærilegum álitamálum. Yfirleitt tengjast þessi mál líka eldri húseignum þar sem oft á tíðum eru í gildi eignaskiptasamningar sem eru gerðir fyrir gildistöku fjöleignarhúsalaganna árið 1994, og eru því ekki í öllum tilvikum í fullu samræmi við laganna bókstaf.
Oct 15, 2025 | Fréttir
Eignaumsjón hf. er í hópi 1.720 fyrirtækja á Íslandi sem eru á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri árið 2025.
Að þessu sinni eru 2.6% fyrirtækja á Íslandi á lista yfir „Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri“ og er þetta í fimmta árið í röð sem Eignaumsjón er þar. Til að komast á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar þurfa fyrirtækin að uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri þurfa að hafa skilað ársreikningi fyrir rekstrarárin 2024 og 2023 og rekstrarárið 2022 er einnig notað til viðmiðunar.
- Fyrirtækin þurfa að hafa skilað jákvæðri afkomu á rekstrarárunum 2024 og 2023.
- Tekjur fyrirtækja þurfa að hafa verið umfram 50 milljónir króna á rekstrarárunum 2024 og 2023.
- Eignir fyrirtækja þurfa að hafa verið yfir 90 milljónir króna í lok áranna 2024 og 2023.
- Eiginfjárhlutfall fyrirtækja þarf að hafa verið yfir 20% í lok áranna, nema í tilviki bankanna.
Auk ofangreindra þátta er tekið tillit til annarra þátta, sem metnir eru af Viðskiptablaðinu og Keldunni.
Styrkleikamerki fyrir reksturinn
„Það er styrkleikmerki fyrir rekstur fyrirtækisins að vera á þessum lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, en í viðtali í sérblaði Viðskiptablaðsins um “Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri” árið 2025 kemur Daníel m.a. inn á að Eignaumsjón hafi verið í töluverðum umbreytingum sem hafi tekið í reksturinn, jafnframt því að starfsemin hafi verið efld á liðnum misserum. Hlekkur á viðtalið við Daníel er hér.