Fólkið okkar ― Elsa

Mosfellingurinn Elsa Hákonardóttir er einn af þremur gjaldkerum í 12 manna fjármálateymi Eignaumsjónar og einn af reynsluboltum fyrirtækisins, með rúmlega sex ára starfsreynslu á miklum vaxtatímum í starfseminni.

„Ég var ráðin í hálft starf í febrúar 2014, sem fljótlega endaði í fullu starfi en þá voru starfsmennirnir 10 og húsfélög í þjónustu einungis 170 talsins,“ segir Elsa sem byrjaði að aðstoða Kristínu Eggertsdóttur heitna, sem var gjaldkeri til margra ára hjá Eignaumsjón. „Þegar hún féll frá tók ég við gjaldkerastarfinu, sem er mjög annasamt allan ársins hring. Núna erum við þrjár að sinna tæplega 600 húsfélögum.“

Tölvu- og tæknivæðing lykill að betri þjónustu

Lykillinn að vexti Eignaumsjónar er ekki síst sú mikla áhersla sem hefur verið lögð á að tölvu- og tæknivæða sem mest alla þjónustu fyrirtækisins með sérsmíðuðum innheimtu-, greiðslu- og verkumsjónarkerfum, sem eru í stöðugri þróun.

„Greiðslukerfið sem við vinnum með er gott og hefur tekið miklum framförum í gegnum árin. Margir reikningar eru orðnir rafrænir sem sparar mikla vinnu, t.d. í samskiptum okkar við formenn húsfélaganna en við þurfum samþykki þeirra til að greiða reikninga. Einnig við að kalla eftir reikningum sem berast ekki á réttum tíma og eins ef við fáum athugasemdir við reikninga, þá þarf líka að koma þeim á framfæri.“

Úr Álafossbúðinni til Eignaumsjónar

Elsa er fædd og uppalin í Mosfellssveit, sem nú er Mosfellsbær og býr þar með eiginmanni sínum. Þau eiga þrjú uppkomin börn og barnabörnin eru orðin átta talsins, á aldrinum 2-13 ára.

„Áður en ég hóf störf hjá Eignaumsjón áttum við hjónin Álafossbúðina í Mosfellsbæ, svo ég var vön mikilli vinnu og að gefa mig alla í vinnuna,“ segir Elsa en eftir að þau seldu verslunina tók hún sér fyrst gott frí, sem hún notaði m.a. til að vera dagmóðir fyrir fjögur af barnabörnunum.

Útivistargarpur með græna fingur

„Frítíma mínum eyði ég oftast í bústaðnum okkar, sem er okkar annað heimili, en þar er alltaf nóg við að vera, s.s. að halda við húsinu, fara í göngutúra og út á bát að veiða í vatninu, eða líka bara að njóta þess að vera í fallegu umhverfi. Ég er einnig með garð heimavið og hef gaman af að halda honum við og það spillti ekki fyrir að við fengum verðlaun fyrir garðinn okkar árið 2018! Svo hitti ég auðvitað börnin og barnabörnin og þau koma líka gjarnan með í bústaðinn.“

Göngutúrar eru helsta heilsuræktin hjá Elsu og stóð m.a. til að fara í skipulagða gönguferð í Austurríki í sumarfríinu og ferðast síðan um á mótorhjóli sem farþegi hjá bóndanum. „Það varð ekkert af þessum áformum vegna kórónuveirunnar en ég er búin að taka tæpa viku í frí í sumar og ég eyddi henni í að mála þakið á húsinu okkar. Þá er meiningin að fara í haustferð fyrst vorferðin var blásin af en miðað við ástandið núna geri ég ráð fyrir að hún verði bara upp í bústað!“

Elsa stundar einnig vatnsleikfimi, Agva sumba, sem hún segir að sé mjög góð hreyfing og svo er hún Soroptimisti, sem eru alþjóðleg starfsgreinasamtök fyrir konur sem láta gott af sér leiða.

„Að sjálfsögðu er ég gjaldkeri í mínum klúbb, hvað annað? Þannig er tilveran hjá mér, gjaldkeri í leik og starfi!