,

Brunavarnir í fjölbýlishúsum

Brunar í fjöleignarhúsum geta valdið bæði mikilli hættu og eignatjóni. Því er mikilvægt að huga stöðugt að brunavörnum til að stuðla að öryggi íbúa. Mörg dæmi eru um að aukin hætta hafi skapast í eldsvoðum, bæði vegna þess að öryggismálum hafi ekki verið sinnt sem skyldi og einnig vegna slæmrar umgengni í sameign sem torveldaði umferð slökkviliðsmanna og annarra.

Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um brunavarnir kemur fram að hver íbúð, stigagangur og geymslugangur fyrir sig í fjöleignarhúsum eigi að vera sérstakt brunahólf, sem þoli eld í ákveðinn tíma, þannig að fólki sem þar er gefist tími til að komast út.

Stigagangar eru flóttaleiðir í eldsvoðum

Áréttað er mikilvægi þess að stigagangar séu sérstakt brunahólf svo þeir séu örugg og trygg flóttaleið fyrir íbúa viðkomandi húss. Til að standast þær kröfur þurfa allar hurðir sem liggja að stigagangi að vera sjálflokandi og reykþéttar og þola bruna í a.m.k. 30- 60 mínútur. Hurðir að íbúðum eiga að hafa að minnsta kosti 30 mínútna brunaþol. Hurðir á milli geymslurýmis, þvottahúss og stigagangs ættu að hafa minnst 60 mínútna brunaþol.

Mikilvægt er einnig að tryggja öryggi í stigagöngum sem eru skilgreindir sem flóttaleiðir. Gólfefni þurfa að vera úr eldtregum efnum. Í sameign má alls ekki hengja upp eða safna saman hlutum, sem geta valdið hættu ef kviknar i þeim eða þeir truflað umferð í eldsvoða, t.d. reykkafara eða íbúa á flótta.

Svalir mikilvægur öryggisþáttur

Svalir eru einnig mikilvægur öryggisþáttur í fjöleignarhúsum því minnst tvær flóttaleiðir þurfa að vera frá hverri íbúð. Ef ekki er hægt að nota stigagang geta svalir verið trygg flóttaleið. Það þarf að vera hægt að komast af þeim með auðveldum hætti, annað hvort af eigin rammleik eða með aðstoð slökkviliðs. Gasgrill á svölum þurfa að vera staðsett þannig að þau valdi ekki brunahættu. Ef svalalokanir eru til staðar þurfa þær að vera með þannig opnunarbúnaði  að auðvelt sé að bjarga fólki af svölunum.

Brunavarnir í geymslum og bílageymslum

Oftar en ekki er mikið af brennanlegum efnum að finna í geymslum fjöleignarhúsa.Því er mikilvægt að aðskilja geymsluganga frá stigagöngum með eldtraustri hurð. Ekki skal vera með hluti í geymslum sem geta valdið hættu ef eldur kemur upp, s.s. gaskúta, flugelda eða bensín eða ólíur sem nemur meiru en fimm lítrum.

Í sameiginlegum bílageymslum má ekki geyma neitt annað en bíl og það sem honum tilheyrir, s.s. dekk, bón og annað smádót. Umgangur milli bílageymslu og stigahúss á að vera um svokallaða „slúsu“. Þar skal vera eldvarnarhurð úr stáli bílageymslu megin og úr timbri stigagangs megin.

Flóttaáætlanir og öryggisbúnaður

Mörg dæmi sýna að öryggisbúnaður, s.s. reykskynjarar, slökkvitæki, brunaviðvörunarkerfi o.fl., hefur bjargað mannslífum þegar eldur hefur komið upp. Reykskynjarar eiga að vera á öllum hæðum í stigagangi og í geymslugöngum. Æskilegt er að þeir séu samtengdir. Handslökkvitæki á að vera í öllum íbúðum eða eldvarnarteppi í hverri íbúð og handslökkvitæki í stigahúsi. Útgöngu- og neyðarlýsingar þyrftu að vera á göngum og í stigahúsum. Gasskynjari ætti að vera þar sem gas er geymt í geymslum.

Á hverju heimili ætti einnig að vera til flóttaáætlun ef kviknar í. Þar væru flóttaleiðir heimilisins kortlagðar og tryggt að allt heimilisfólkið þekki þær.

Ókeypis úttekt á eldvörnum fjölbýlishúsa

Að lokum skal bent á að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins býður upp á ókeypis úttekt á eldvörnum í sameign fjölbýlishúsa ef stjórn húsfélags fer fram á slíkt. Teikningar að húsi þurfa að liggja fyrir þegar skoðun fer fram. Að lokinni skoðun fær fulltrúi húsfélagsins afhentar skriflegar athugasemdir. Þær ber að líta á sem leiðbeiningar en ekki kröfur. Forvarnasvið slökkviliðsins hvetur þó engu að síður til þess að tekið sé mið af þessum athugasemdum og ráðist í úrbætur sem fyrst ef þörf er talin á þeim.