Lögum um fjöleignarhús breytt til að liðka fyrir rafbílavæðingu

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um fjöleignarhús sem hafa það að markmiði að auðvelda uppsetningu á hleðslubúnaði fyrir rafbíla í fjöleignarhúsum og liðka þannig fyrir rafbílavæðingu í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum.

Með lagabreytingunni, sem samþykkt var á dögunum og tekur þegar gildi, var bætt inn fjórum nýjum greinum (33.a – 33.d) í fjöleignarhúsalögin um hleðslubúnað fyrir rafbíla. Samkvæmt þeim getur eigandi í fjöleignarhúsi, sem vill setja upp hleðslubúnað fyrir rafbíla við eða á bílastæði á lóð fjöleignarhússins, nú sent beiðni um slíkt til húsfélagsins sem ber þá skylda til að bregðast við með því að láta gera sérstaka úttekt á áætluðum framtíðarþörfum og kostnaði. Ekki þarf að bera gerð slíkar úttektar undir atkvæði eigenda og kostnaður skiptist jafnt á alla sem eiga í hlut.

Með þessu fyrirkomulagi hefur húsfélagið tök á að stýra aðgerðum og það hefur jafnframt heimild til að stöðva framkvæmdir, hafi íbuar farið í framkvæmdir án þess að úttekt hafi verið gerð í samráði við félagið.

Helstu breytingar og nýjungar

Hleðslubúnaður rafbíla og annar tengibúnaður skal uppfylla allar opinberar kröfur sem gerðar eru til slíks búnaðar og skal löggiltur rafverktaki annast uppsetningu hans. Lagnir og lagnakerfi vegna hleðslustöðva rafbíla skulu vera í eigu húsfélags en stöð í stæði skal vera eign íbúa.

Kjósa ber um um tillögur um hleðslubúnað og lagnakerfi í sameign og ef kostnaður við hleðslubúnað er óvenju hár, miðað við það sem almennt tíðkast í sambærilegum húsum, getur fjórðungur eigenda óskað eftir frestun framkvæmda í tvö ár. Skal þá nota þann tíma til að safna í sérstakan framkvæmdasjóð fyrir hleðslubúnaðinum.

Einfaldur meirihluti nægir til að samþykkja tillögur um að koma upp hleðslu- og lagnakerfi á minna en helmingi sameiginlegra og óskiptra bílastæða. Samþykki 2/3 hluta eigenda þarf ef taka á meira en helming stæðanna undir hleðslu rafbíla og samþykki allra eigenda þarf ef nota á ¾ hluta stæðanna eða fleiri. Hins vegar þurfa eigendur einkastæða við fjöleignarhús ekki lengur leyfi annarra eigenda fyrir uppsetningu hleðslustöðva við þau stæði.

Skipting kostnaðar og þóknun fyrir aðgengi

Í lagabreytingunum eru einnig settar reglur um skiptingu kostnaðar. Ef um séreign er að ræða ber viðkomandi eigandi kostnað af uppsetningu hleðslubúnaðarins. Þegar um sameign er að ræða er gert ráð fyrir sameiginlegum kostnaði allra eigenda sem hafa heimild til afnota af viðkomandi bílastæði, hvort sem það er áfram nýtt sem almennt bílastæði eða eingöngu til hleðslu rafbíla. Þá hafa húsfélög nú heimild samkvæmt lögunum til að krefjast hóflegrar mánaðarlegrar þóknunar fyrir aðgengi frá eigendum sem nýta hleðslubúnað fyrir rafbíla, hvort sem um er að ræða á sameiginlegum stæðum eða einkastæðum, á bílastæði eða í bílahúsi/kjallara.