Má ekki leggja vörubíl fyrir utan fjölbýli

Fréttablaðið greinir í dag frá því að kærunefnd húsamála hafi hafnað því að eigandi 16 tonna vörubifreiðar megi leggja henni í sameiginlegt bílastæði 18 íbúða fjölbýlishúss, sem mun vera í Hafnarfirði samkvæmt upplýsingum blaðsins. Jafnframt hafi verið óheimilt að stækka umrætt bílastæði án samþykkis og leyfis annarra eigenda.

Í úrskurði kærunefndarinnar, sem birtur var 20. apríl sl., kemur fram að ágreiningurinn snúist um hvort heimilt sé að leggja vörubifreiðinni í bílastæði, sem stendur fyrir framan bílskúrsreit, þannig að bifreiðin stærðar sinnar vegna standi bæði á bílastæðinu og bílskúrsreitnum. Bílskúrsreitnum hefur ekki verið úthlutað til sérstakrar íbúðar en óumdeilt sé hins vegar að vörubílseigandinn eigi bílskúrsrétt á lóðinni sem hann hafi enn ekki nýtt sér. Þá er áréttað að í gildandi eignaskipayfirlýsingu fyrir fjöleignarhúsið, þinglýstri í september 2011, séu alls 23 bílastæði í óskiptri sameign á lóð hússins, þar af eitt stæði fyrir hreyfihamlaða.

Bílastæði fjöleignarhúsa almennt sameign

Áréttað er í úrskurðinum að samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, teljist bílastæði á lóð fjöleignarhúss sameiginleg og óskipt, nema ákveðið sé í þinglýstum heimildum að tiltekin bílastæði fylgi ákveðnum séreignarhlutum. Þar komi einnig fram að óskiptum bílastæðum verði ekki skipt nema allir eigendur samþykki og skulu þá gerðar nauðsynlegar breytingar á eignaskiptayfirlýsingu og þeim þinglýst. Jafnframt er bent á að samkvæmt fjöleignarhúsalögunum sé eigendum og öðrum afnotahöfum óheimilt að nota sameiginlegt húsrými, eða lóð, til annars en því er ætlað. Einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur, nema allir eigendur ljái því samþykki sitt.

Í úrskurðinum er enn fremur bent á að lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994, víki ekki sérstaklega að bílskúrsrétti, eða hvað slíkur réttur felur nákvæmlega í sér en að mati kærunefndar er bílskúrsréttur réttur til að byggja bílskúr á tilteknum reit lóðar. Felist því í bílskúrsrétti kvöð á ákveðnum lóðarhluta, þ.e. takmörkun á hagnýtingu hans. Aftur á móti feli bílskúrsréttur ekki í sér séreignarréttindi á umræddum reitum samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 26/1994 og telst hann og þar með talið bílastæði fyrir framan væntanlegan skúr því sameign þar til bílskúr hefur verið byggður, nema þinglýstar heimildir kveði á um annað.

Óheimil nýting á bílastæði og stækkun líka óheimil

Af fyrirliggjandi gögnum telur kærunefndin ljóst að umrædd vörubifreið sé of stór til þess að unnt sé að leggja henni í venjulegt bílastæði, enda sýni myndir að hún skagi töluvert út fyrir skilgreint bílastæði. Einnig telur nefndin að með því að leggja vörubifreið í stæði fjöleignarhúss, sem aðeins hefur að geyma íbúðir, sé verið að nýta bílastæðið til annars en því sé ætlað. Með vísan til 2. mgr. 35. gr. fjöleignarhúsalaga telur nefndin því að þessi hagnýting á sameiginlegu bílastæði sé óheimil. Með hliðsjón af framangreindu er því fallist á kröfu húsfélagsins um að eiganda vörubifreiðarinnar sé óheimilt að leggja henni í sameiginleg bílastæði hússins.

Jafnframt telur kærunefndin, með vísan til 4. mgr. 35. gr. fjöleignarhúsalaga, að eiganda vörubílsins hafi ekki verið heimilt upp á sitt einsdæmi að ráðast í stækkun bílastæðisins, með því að leggja möl fyrir framan það til að skapa betri skilyrði til að leggja bifreiðinni.