Fjöleignarhúsalögin heimila ekki rafræna húsfundi eða undirskriftir

Eftir tilslakanir á samkomubanni vegna Covid 19 er á ný byrjað að halda hús- og aðalfundi húsfélaga sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón. Stefnt var að því að nýta fjarfundatækni og rafrænar undirskriftir til að auðvelda framkvæmd funda en fallið hefur verið frá þeim áformum eftir að félagsmálaráðuneytið úrskurðaði að fjöleignarhúsalögin heimili ekki slíka framkvæmd.

Til að fá úr því skorið hvort hús- og aðalfundir haldnir með fjarfundatækni og rafrænum undirskriftum teldust lögmætir ef til ágreinings kæmi varðandi framkvæmd eða ákvörðun slíks fundar, leitaði Eignaumsjón álits félagsmálaráðuneytisins sem úrskurðaði að áður en hægt verði að fara í rafræna húsfundi og rafræn samskipti þurfi að breyta lögum um fjöleignarhús.

„Ráðuneytið telur lög um fjöleignarhús ekki ná utan um að húsfundir verði haldnir rafrænt né utan um rafrænar undirskriftir. Lögin eru skrifuð áður en þessi tækni var fram komin og ekki er unnt að túlka lögin þannig að þau nái yfir fjarfundi og öll þau álitamál sem þar geta komið upp í kringum slíka fundi, s.s. hvernig eigi að taka umboð gild, hvernig eigi að haga atkvæðagreiðslu, fundarsókn, undirskriftum o.fl.  Ráðuneytið telur því ekki unnt að leggja þann skilning í lög um fjöleignarhús að þau heimili rafræna húsfundi eða undirskriftir,“ segir m.a. í svari lögfræðings félagsmálaráðuneytis til Daníels Árnasonar, framkvæmdastjóra Eignaumsjónar.

Aðalfundir hafnir á ný í öruggri fundaraðstöðu

Í ljósi svara ráðuneytisins og tilslakana á samkomubanni er byrjað að halda aðalfundi húsfélaga á vegum Eignaumsjónar á ný með hefðbundnum hætti. Húsfélög sem þurfa að taka fyrir tillögur um viðhald og tilboð í framkvæmdir njóta forgangs til að byrja með en aðalfundir félaga þar sem ekki þarf að taka fyrir brýn framkvæmdamál eru áætlaðir síðar á árinu. Er það í samræmi við heimild félagsmálaráðuneytisins vegna kórónafaraldursins að seinka megi aðalfundum húsfélaga, þó ekki lengur en til loka októbermánaðar.

Til að mæta 2ja metra fjarlægðarmörkum og öðrum reglum sóttvarnalæknis er nú einungis í boði að halda aðalfundi í rúmgóðum og hentugum fundarsölum úti í bæ eða í nýja Grensás fundarsalnum á Suðurlandsbraut 30. Hann er á jarðhæðinni, austan við skrifstofu Eignaumsjónar og gengið beint inn í salinn um inngang á framhlið hússins. Þar eru sæti fyrir 20-25 fundargesti með tilskyldum fjarlægðarmörkum og aðstöðu. Aðalfundir verða ekki haldnir í skrifstofurými Eignaumsjónar (Dalur, Leiti, Reykjaborg, Múli) fyrr en samkomubanni hefur verið aflétt.

Um 150 aðalfundir eftir

Búið var að halda um 300 aðalfundi á vegum Eingaumsjónar um miðjan mars þegar ákveðið var, vegna almannaheilla og í anda þeirra aðgerða sem stjórnvöld höfðu gripið til, að fresta frekara fundarhaldi þar til samkomubanni stjórnvalda hefði verið aflétt eða heimildir rýmkaðar. Eftir er að halda um 150 aðalfundi hús- og atvinnuhúsafélaga á vegum Eignaumsjónar og er þegar búið að fastsetja aðalfundi í maí og júní fyrir félög sem eru á forgangslista. Að loknum sumarfríum, í lok ágúst/byrjun september, verður þráðurinn svo tekinn upp að nýju og öllum aðalfundum lokið fyrir októberlok 2020.