,

Ný og flóknari fjölbýlishús

Töluverðar breytingar eru að eiga sér stað í þjónustu við húsfélög með þeirri miklu uppbyggingu fjölbýlishúsa sem er að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Víða eru risin, eða eru að byggjast upp ,stór samfélög fjölbýlishúsa, s.s. eins og í Skuggahverfi, 201 Smára, Efstaleiti, á Hlíðarenda, Kirkjusandi, við Grandaveg og víðar, þar sem er í fleiri horn að líta með þjónustu og kröfurnar meiri, í takt við nýja tíma.

Fjölbýlishús orðin stærri og flóknari

„Þessi nýju fjölbýlishús eru almennt stærri og tæknilega flóknari byggingar og hafa kallað á aðeins nýja nálgun í þjónustu hjá okkur. Þau eru búin allskyns tæknibúnaði og sérhæfðum þáttum, s.s. hita-, öryggis- og aðgangsstýringum. Þessu og fleiru þarf að sinna, til viðbótar við hefðbundna fjármála-, funda- og rekstrarþjónustu. Því erum við nú m.a. farin að bjóða upp á húsumsjón, sem er reglubundið eftirliti með umhirðu og ástandi sameignar innanhúss sem utan og eru stöðugt fleiri félög í þessum stóru húsum að nýta sér þessa þjónustu,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.

Vilja þjónustu og að allt sé tilbúið

Jafnframt segir Páll að það sé að verða æ algengara að ganga frá stofnun húsfélaga í þessum nýju fjöleignarhúsasamfélögum undir lok byggingartímans.

„Væntingar notenda þessara nýju húsa eru miklar og þeir vilja koma að fullbúinni vöru þegar þeir flytja inn. Það er ekki bara nóg að húsið sé tilbúið, íbúarnir vilja líka að allt sem snýr að rekstri og þjónustu í húsinu sé líka tilbúið, til að vita nákvæmlega að hverju þeir eru að ganga þegar fasteign er keypt,“ bætir  Páll við.

Allra hagur að byggja upp samfélag í sátt

Mikilvægt sé því að ná vel utan um þessi stóru samfélög strax í byrjun með því að ganga frá samþykktum húsfélags og þinglýsa þeim, skilgreina rekstrar- og þjónustuskipulagið og setja húsreglur. Við viljum koma á þjónustusamningi um rekstur húsfélagsins frá byrjun, svo allri óvissu sé eytt. Með þessum hætti er strax í upphafi komið á samskiptum og samstarfi eigenda, sem miðar að því að byggja upp samfélag í sátt í húsinu til að ná utan um alla þætti sem skipta máli varðandi starfsemi húsfélagsins og rekstur sameignarinnar, lögum samkvæmt.

„Þessi nálgun okkar er að ná eyrum framkvæmda- og byggingaraðila, fasteignasala líka held ég, enda er það auðvitað hagur allra að búið sé að ganga frá þessu málum. Best væri auðvitað að ganga frá stofnun  húsfélagsins áður en söluferli íbúða í þessum nýju fjöleignarhúsasamfélögum hefst. Þá kæmu kaupendur strax í byrjun að vel skilgreindum rekstri og skipulagi húsfélagsins,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.