,

Haustið er tíminn til að huga að viðhaldsframkvæmdum næsta sumars

Oft er spurt hvaða tími er „réttur“ til að huga að viðhaldi fasteigna. Það er ekkert einhlýtt svar við þessari spurningu en við hjá Eignaumsjón, sem höfum aðstoðað fjölmörg húsfélög við ákvarðanatöku um viðhaldsframkvæmdir, teljum haustið kjörinn tíma til að huga að viðhaldsframkvæmdum næsta sumars.

Ástæðan er sú að undirbúningur og ákvarðanir vegna stærri viðhaldsframkvæmda húsfélaga er ferli sem tekur alla jafnan töluverðan tíma því eigendur þurfa að vega og meta viðhaldsþörf, forgangsröðun og eigin fjárhagsgetu. Gott samráð og húsfundir eru lykill að farsælli niðurstöðu og oftar en ekki þarf að halda þó nokkra húsfundi, áður en endanleg niðurstaða og ákvörðun liggur fyrir.

Horfum til lengri tíma

Þetta byggjum við á nærri tveggja áratuga reynslu okkar í þessum málum, bæði varðandi ferlið sjálft og líka sjálfa ákvarðanatökuna um að fara í framkvæmdir. Við leggjum ríka áherslu á að hugað sé að reglubundnu viðhaldi til lengri tíma, ekki síst varðandi fjármögnun viðhaldskostnaðar.

„Íslenska aðferðin“ hefur lengi verið sú að bíða með viðhald og viðgerðir þar til í óefni er komið, með tilheyrandi aukakostnaði. Þessu höfum við reynt að breyta hjá þeim húsfélögum sem eru í þjónustu hjá okkur og reynir þá á eigendur í viðkomandi fjölbýli, sem þurfa að ná samstöðu um málið.

Það sem við ráðleggjum stjórnum húsfélaga sem hyggjast fara í umfangsmeiri viðhaldsframkvæmdir er að:

  • Boða til löglegs fundar með eigendum þar sem ástand eignar og viðhald næstu ára er fundarefnið. Stjórn fái samþykki fundar til að ráða sérfróðan aðila til að gera greinargóða ástandsskýrslu og kostnaðarmat vegna viðgerða og viðhalds.
  • Þegar ástandsskýrsla liggur fyrir er hún kynnt á húsfundi og ákvörðun tekin um forgang viðhaldsverkefna. Stjórn fær jafnframt samþykki húsfundar fyrir öflun tilboða.
  • Þegar tilboð liggja fyrir eru þau kynnt á húsfundi með sundurliðun á aðgerðum og kostnaði, bæði aðgerðum sem þarf að ráðast í strax og verkefnum næstu missera. Að kynningu lokinni er tekin ákvörðun um hvaða tilboði skuli taka og í framhaldinu er samið við viðkomandi verktaka.

Betri yfirsýn yfir rekstur og kostnað

Það er okkar reynsla að með þessu verklagi eru líkur minni á óvæntum kostnaði vegna viðhaldsverkefna. Jafnframt fæst betri heildarmynd á allan rekstur og viðhald húsfélagsins og síðast, en ekki síst, verður greiðsludreifing í framkvæmdasjóð húsfélagsins jafnari fyrir eigendur.

Eignaumsjón leggur að sjálfsögðu húsfélögum, sem eru í þjónustu hjá félaginu, lið í þessum efnum. Hægt er að senda erindi á þjónustuverið okkar á netfangið thjonusta@eignaumsjon.is, eða hringa í síma 585-4800 til að óska eftir tilboðum frá fagaðilum í ástandsmat og kostnaðaráætlanir vegna viðhaldsframkvæmda.