,

Útidyr í fjöleignarhúsi eru sameign allra

Útidyr í fjöleignarhúsum falla undir sameign og ekki verður séð að lög geri undantekningu þótt eigendur hafi ekki allir nýtingarmöguleika á þeim. Þetta er niðurstaða Kærunefndar húsamála í ágreiningsmáli sem reis fyrir nokkrum árum vegna skiptingar kostnaðar við endurnýjun og viðhald útidyra í fimm íbúða fjöleignarhúsi.

Ágreiningurinn kom upp vegna uppgjörs á viðgerðarkostnaði í fimm íbúða fjöleignarhúsi þar sem var m.a. skipt um kjallaradyr. Þar hafði kjallarinn verið sameign allra íbúða í húsinu en þegar hluta hans var breytt í séríbúð urðu umræddar dyr og geymsla inn af þeim hluti íbúðarinnar.

Húsfélagið vísaði til þess að þar sem dyrnar gengju að séreign eiganda kjallaraíbúðarinnar og engir aðrir í húsinu hefðu afnot af dyrunum bæri íbúðareigandanum einum að greiða kostnað vegna endurnýjunar og viðhalds kjallarahurðarinnar. Eigandi íbúðarinnar, sem eignaðist hana eftir að breytingar voru gerðar á kjallaranum, krafðist þess hins vegar að viðurkennt yrði að húsfélaginu bæri að taka þátt í kostnaði við nýjar útidyr, enda þær lögum samkvæmt hluti af sameign, nema um svalahurðir væri að ræða.

Féllst úrskurðarnefndin á sjónarmið íbúðareigandans, enda sérstaklega kveðið á um það í lögum að útidyr falli undir sameign og engar undantekningar að finna í lögunum.