,

Húsumsjón Eignaumsjónar vex fiskur um hrygg

HÚSUMSJÓN, sem er hagnýt lausn við eftirlit og umsjón með sameign húsa og húsfélaga, nýtur vaxandi vinsælda hjá viðskiptavinum Eignaumsjónar en byrjað var að bjóða upp á þessa þjónustu vorið 2017. Þá sinnti einn starfsmaður öllum verkefnum en nýlega var annar húsumsjónarmaður ráðinn til félagsins.

„Við höfðum lengi fundið fyrir eftirspurn eftir þjónustu af þessu tagi sem felur í sér reglubundið eftirlit með umhirðu og ástandi sameignar, innahúss sem utan,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar. „Húsumsjón getur komið í stað hefðbundinnar húsvörslu og er fagleg, hagkvæm og skynsamleg lausn  fyrir fjölda hús- og rekstrarfélaga. Þannig geta eigendur íbúðar- og atvinnuhúsnæðis lækkað viðhaldskostnað og tryggt að ástand fasteigna sé eins og best verður á kosið.“

Tveir húsumsjónarmenn í fullu starfi

Viðskiptavinum hefur fjölgað jafnt og þétt frá því að Eignaumsjón byrjaði að bjóða upp á húsumsjónina en hægt er að ákveða tíðni þjónustunnar eftir þörfum og óskum hvers viðskiptavinar. Í boði er allt frá daglegri þjónustu yfir í heimsóknir á 1-2 vikna fresti, eða mánaðarlega, eftir því hvað hentar.

Tveir iðnmenntaðir húsumsjónarmenn, Einar Snorrason og Logi Már Einarsson, eru nú í fullu starfi hjá Eignaumsjón. Einar, sem er með sveinspróf í húsasmíði, kom til starfa fyrir tæpum tveimur árum en Logi Már, sem einnig er með sveinspróf í húsasmíði, kom nýlega til starfa hjá Eignaumsjón.

Stöðuskýrsla að lokinni heimsókn

„Við leggjum mikla áherslu á skráða verkferla og starfsmenn okkar fylgja fyrir fram ákveðinni verklýsingu fyrir hvern viðskiptavin, sem tekur til bæði umgengni og ástands sameignar, yfirferðar á búnaði, lagfæringum og eftirliti og eftirfylgni vegna aðkeyptrar þjónustu. Að lokinni hverri heimsókn er skýrslu skilað um það sem gert var, ástand sameignar og ábendingar varðandi það sem betur mætti fara, enda skipta góð samskipti og upplýsingagjöf til viðskiptavina sköpum fyrir þjónustufyrirtæki eins og okkur,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.