,

Eignaumsjón gengur til liðs við Grænni Byggð

Eignaumsjón gekk nýverið til liðs við Grænni byggð (áður Vistbyggðarráð).

Grænni byggð er vettvangur um vistvæna þróun byggðar og starfrækir faghópa á meðal aðildarfélaga, skipuleggur fræðsluviðburði, gefur út fræðsluefni og tekur þátt í rannsóknar- og þróunarverkefnum.

Að samtökunum standa bæði opinberir aðilar og fyrirtæki sem tengjast mannvirkjagerð á Íslandi. Þá taka samtökin virkan þátt í erlendu samstarfi við systursamtök sín, sérstaklega á Norðurlöndum, í gegnum verkefni og viðburði.

Grænni byggð vill að hringrásarhagkerfið sé haft að leiðarljósi við byggingu, hönnun og rekstur á mannvirkjum.  Jafnframt beitir Grænni byggð sér fyrir því að til séu umhverfisviðmið fyrir byggingar og skipulag á Íslandi og að þeim sé framfylgt.

Við hjá Eignaumsjón teljum að við rekstur fasteigna verði í vaxandi mæli horft til umhverfisvænna sjónarmiða, m.a. varðandi orkunýtingu (raforku, heitt og kalt vatn), fyrirkomulag og flokkun úrgangs, skipulag fasteigna, nýtingu lóðar og bílastæða, rafmagnshleðslu bíla og fleira mætti nefna. Eignaumsjón mun í samstarfi við Grænni byggð innan tíðar gefa út fræðsluefni til dreifingar meðal eigenda fasteigna. Í leiðbeiningunum verður komið inn á umhverfisvæna orkunotkun, lausnir fyrir hleðsluráðstöfun fyrir rafmagnsbíla, lausnir fyrir hjólageymslur/barnavagna/verkstæði,  og flokkun úrgangs.  Mögulegir aðrir þættir eru aðstaða fyrir samnýtingu á t.d. verkfærum og samakstur/deilibílalausnir.  Helsta markmiðið er að breiða út boðskapinn varðandi góðar umhverfisvænar lausnir fyrir húsfélög.