Húsvörður - Staðarhaldari óskast

Húsfélagið að Löngulínu 2 í Garðabæ vill ráða húsvörð - staðarhaldara í hlutastarf (30-35%) auk nokkurra aukaverka eftir samkomulagi.

Fastur vinnutími er mánudaga - miðvikudaga og föstudaga, frá kl. 8-12.

Í húsinu eru 48 íbúðir í þremur stigagöngum ásamt bílgeymslu.
Verkefni staðarhaldara eru almenn þrif á sameign, umhirða lóðar, bílastæði og bílageymslu auk minniháttar viðhalds og endurbóta.

Staðarhaldari þarf að vera sérstaklega þrifsækinn, laghentur, útsjónarsamur og hafa auga fyrir því sem betur má fara.

Skriflegar umsóknir berist til Eignaumsjón hf. Suðurlandsbraut 30, 108 Reykjavík eða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Umsóknarfrestur er til og með 30. mars 2017.

Greiðsluseðlar á "mínar síður" - lækkun þjónustugjalda

Eins og fram hefur komið þá hefur Eignaumsjón ákveðið að hætta að senda út greiðsluseðla í pósti til eigenda. Var þessi ákvörðun tekin með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi og til að lágmarka umhverfisáhrif vegna prentunar greiðsluseðla. Einnig er þetta gert með sparnað að leiðarljósi fyrir húsfélögin.

Samanlagt er um að ræða sparnað uppá 12 milljónir króna árlega sem viðskiptavinir Eignaumsjónar spara sér með póstburðargjöldum. 

Þessi breyting hefur mælst vel fyrir hjá fasteignaeigendum og mikil og almenn ánægja með þetta skref.

Í framhaldinu höfum við nú lækkað þjónustugjald okkar samninga (sem gerður voru fyrir ágúst 2016) sem nemur póstsendingu greiðsluseðla.

Greiðsluseðlarnir eru nú aðgenglegir á „mínum síðum" þar sem eigendur geta skoðað húsgjaldaseðlana, greiðslusögu sína ásamt öðrum upplýsingum sem tengjast húsfélaginu.
Rétt er að benda á að ef íbúðaeigendur vilja fá greiðsluseðil fyrir húsgjöldum sendan heim þarf að senda okkur tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða hringja í síma 585-4800 og óska sérstaklega eftir því og þá greiða seðilgjald.

Símenntun - þekking í bókhaldi eykst

Starfsfólk Eignaumsjónar er sífellt að auka við sína þekkingu til þess að bæta þjónustu viðskiptavinanna.

Lilja Kristinsdóttir í bókhaldinu lauk nú nýverið námi sem viðurkenndur bókari með undirbúningsnámi frá HR.

Við óskum henni til hamingju með þennan áfanga.
Það er alltaf ánægjulegt þegar aukin þekking bætist við reynslu öflugs starfsfólks Eignaumsjónar.

Aðalfundur húsfélagsins framundan

Nú er aðalfundartímabilið hafið því samkvæmt lögum um fjöleignahús ber að halda aðalfund húsfélaga á tímabilinu frá janúarbyrjun til aprílloka ár hvert. „Úfff" segja margir sem stýra húsfélögum en þetta finnst okkur hér hjá Eignaumsjón skemmtilegur tími því ein af meginstoðum í rekstrarþjónustu okkar er undirbúningur og framkvæmd aðalfundarins.

Húsfélög sem nýta sér þjónustu Eignaumsjónar eru því í öruggum höndum þegar kemur að aðalfundinum, faglega er haldið utan um aðalfundinn og það sem þar er tekið fyrir og afgreitt.

Í 61. grein laganna um fjöleignahús eru verkefni aðalfunda og dagskrá sérstaklega tilgreind og því skýrt hvað taka skuli þar fyrir.

Þetta er ein af fjölmörgum ástæðum þess að húsfélög leita til okkar með þjónustu, en það er að halda faglega um aðalfundinn því afar mikilvægt er að halda löglega fundi þar sem löglegar ákvarðanir eru teknar.

Minningarorð um Kristínu, gjaldkera

Kristín Magnea Eggertsdóttir - Minning
Kynni mín af Kristínu hófust vorið 2007 þegar ég hóf störf hjá Eignaumsjón. Hún gegndi starfi gjaldkera félagsins og gegndi þar af leiðandi trúnaðarstarfi fyrir fjölda viðskiptamanna. Ég fann strax hversu traust og heilsteypt Kristín var og það fundu bæði samstarfsmenn og viðskiptamenn okkar jafnframt. Sem starfsmaður var hún einstaklega hreinskiptin og sönn, sagði það sem henni bjó í brjósti og fylgdi eigin sannfæringu. Með ósérhlífni, dugnaði og trúmennsku á Kristín drjúgan þátt í uppbyggingu Eignaumsjónar á liðnum árum. Fyrir það vil ég þakka.
Þessi einstaka dugnaðarkona setti sterkan svip á vinnustaðinn. Hún gekk í öll þau störf sem þurfti og hafði jafnframt góða skipulagshæfileika sem nýttust langt útfyrir hennar starfssvið. Ef breyta þurfti verkskipulagi eða fyrirkomulagi á skrifstofunni var best að fá fyrst tillögur Kristínar til að vinna útfrá. Það átti líka við þegar skipuleggja átti starfsmannahóf eða ferðir. Þær voru ófáar ferðirnar sem Kristín átti frumkvæði að og stýrði af sínum myndarskap. Við hjá Eignaumsjón og aðrir starfsmenn hér í húsinu að Suðurlandsbraut 30 komum til með að sakna nærveru Kristínar og atorku.
Fyrir hönd okkar allra leyfi ég mér að votta fjölskyldu Kristínar dýpstu samúð með þakklæti í huga, þakklæti fyrir að hafa átt samleið Kristínu, samleið sem átti að verða miklu lengri.

Daníel Árnason

Minningargrein í Morgunblaðinu birt 12. janúar 2017

Nýir starfsmenn Eignaumsjónar

Við öflugt starfsfólk Eignaumsjónar hafa nú bæst tveir nýir starfsmenn.

Guðrún Helga Guðjónsdóttir hefur verið ráðin á fjármálasvið sem aðalbókari og mun hún hafa yfirumsjón með bókhaldi og ársuppgjörum viðskiptavina Eignaumsjónar. Guðrún Helga er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og starfaði áður hjá Norðuráli.

Sigríður Hafdís Benediktsdóttir hefur verið ráðin í þjónustu, móttöku og skjalavörslu. Hún starfaði áður sem verslunarstjóri hjá Pennanum Eymundsyni.

Guðrún Helga og Sigríður Hafdís eru boðnar velkomnar í hóp starfsamanna sem þjónustar ört fjölgandi viðskiptavinum Eignaumsjónar.

Andlát Kristínar M. Eggertsdóttur, gjaldkera

Kristín Magnea Eggertsdóttir gjaldkeri Eignaumsjónar er látin, 63 ára að aldri. Hún starfaði hjá Eignaumsjón hf. allt frá árinu 2006 til 2016 sem gjaldkeri og þjónustufulltrúi. Kristín var traustur starfsmaður og átti hún drjúgan þátt í uppbyggingu Eignaumsjónar á liðnum árum.
Eiginmaður Kristínar er Valur Valdimarsson.

Við hjá Eignaumsjón vottum honum og fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð.

 

Vegna útfarar Kristínar verður skrifstofa Eignaumsjónar lokuð eftir kl. 14 n.k. mánudag en húsfundir verða þó með óbreyttu sniði.

 

 

Umsagnir

 • Aðkoma Eignaumsjónar hefur komið stöðugleika á okkar litla húsfélag. Ákveðin formlegheit þeirra hafa gert það að verkum að stjórnin er nú starfhæf, unnið er eftir góðri rekstraráætlun og dagleg umsjón er í góðum farvegi.
  Skoða nánar
 • Áður fyrr voru málefni húsfélagsins engan veginn í lagi. Illa var haldið utan um fjármál og bókhald,
  málin voru þokukennd og stundum villandi fyrir eigendur. Það að fá Eignaumsjón til að sjá um
  húsfélagið hefur breytt öllu..
  Skoða nánar
 • Þjónusta Eignaumsjónar er tvímælalaust skilvirk og unnin með faglegum hætti. Þjónustan sparar
  mér mikinn tíma og fyrirhöfn við fjármál og rekstur húsfélagsins. Þetta á við störf sem snúa að
  gjaldkera..
  Skoða nánar
 • Við hófum samstarf við Eignaumsjón árið 2008. Hjá okkur var staðan ekki slæm, hússjóður í
  þokkalegum málum en nokkuð stórt húsfélag þannig að gjaldkerastarfið var fyrirhafnarsamt. Okkur
  fannst ekki ganga að leggja þetta á einn eiganda..
  Skoða nánar
Copyright (c) Eignaumsjón hf 2014. Vefhönnun: VEFHEIMAR